149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:52]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Vegna þeirrar spurningar sem þingmaður kemur hér með um hvort við höfum náð upp fyrri samdrætti, getum við sagt að lántaka ríkissjóðs vegna þess áfalls sem hann varð fyrir hafi verið með tvenns konar hætti: Í fyrsta lagi bein lántaka í fjármunum og hins vegar lántakan sem við gerum raunverulega með því að draga viðhald, eins og t.d. á vegum og fleiri þáttum sem við frestum.

Ég held að enginn reikningur geti fært okkur einhvern sannleika í þeim efnum hvort við höfum náð upp í samdráttinn, svo ég svari þeirri spurningunni beint. En veruleikinn er sá að við höfum aldrei nokkurn tíma á seinni tímum lagt jafn mikla fjármuni í viðhald vega eins og núna. Og við leggjum nú verulega fjármuni í fjárfestingar og endurbætur á ýmsum fasteignum hins opinbera og stöndum í nýframkvæmdum. Þar ber hæst byggingu á nýjum spítala, sem er risaframkvæmd og lengi er búið að bíða eftir. Þannig að við getum sagt: Við erum á góðri leið með að ná til baka því sem við urðum að fresta vegna þeirra aðstæðna sem við þurfum ekki að rekja hér.

Í öðru lagi það sem hv. þingmaður spyr um, þ.e. hvernig við nýtum fjármunina. Það er í sjálfu sér verkefni okkar þingmannanna að reyna að horfa í gegnum hvernig við ráðstöfum þeim fjármunum sem við höfum úr að spila hverju sinni. Ég segi þá fyrst og fremst: Það er alltaf stöðug vinna. Ég tek eftir því við framkvæmd fjárlaga þessa árs að í fyrsta sinn í mjög langan tíma, af þeim tíma sem ég hef fengið að fylgjast með á þessum vettvangi, sjáum við ekki að hin stóru frávik sem við höfum stundum staðið frammi fyrir og þekkjum of vel sem sitjum í fjárlaganefnd.