149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni efnahags- og viðskiptanefndar kærlega fyrir áhugaverða ræðu. Ég ætla að nefna hérna aðeins lokaorðin. Í fjármálaáætluninni eru útgjaldarammar fyrir málefnasviðin Sjúkrahúsþjónusta og Lyf og lækningavörur sem summast í fljótum hugarreikningi upp í 220 milljarða og 2023 í 250 milljarða. Hvort það passar við töluna sem hv. þingmaður nefndi áðan kemur bara í ljós í þingritun eða hann getur leiðrétt það.

Mig langar til að velta upp með hv. þingmanni, því að hann nefndi að við ættum að ræða þetta, 138 milljarða kr. sparnaði eins og hann taldi upp. Ég er alveg tvímælalaust til í að ræða það, sérstaklega með tilliti til síðasta ræðumanns, hv. þm. Haraldar Benediktssonar, þar sem fram kom aðeins um þessa skuldasöfnun í innviðum sem við höfum farið í. Vandamálið er nefnilega að í lántökum í beinhörðum peningum sjáum við rosalega vel hver vaxtakostnaðurinn er. Við höfum það fyrir framan okkur. Þegar við tökum lán í innviðunum okkar með því að halda þeim ekki við, sinna hvorki viðhaldi né uppbyggingunni, sjáum við miklu síður hver kostnaðurinn af því er. Það er alveg sama lántakan sem er einmitt eitt sem fjármálaráð benti á, og hefur bent á ítrekað, að það vantar svokallaða kostnaðar- og ábatagreiningar til að við sjáum skýrt fyrir framan okkur hver af þeim aðgerðum sem við höfum til að fara sem best með almannafé gefur okkur mesta ábatann.

Það geta verið lánin í beinhörðum peningum en það getur líka verið að það sé meiri ábati að lokum að gera góða vegi.