149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:16]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Það væri einnar messu virði að við tækjum sérstaka umræðu um hvernig við nýtum eignir ríkisins, hvort við gerum það skynsamlega (BLG: Skýrsla?) — en ég held að við eigum að byrja á að ræða það hér þannig að við áttum okkur á því um hvað við erum að tala. Ég reikna með að hv. þingmaður taki þá virkan þátt í því. Kannski er rétt að ég beiti mér fyrir slíkri umræðu hér, hvernig við nýtum eignir ríkisins og hvort það er gert skynsamlega, með þeim hætti sem almenningur krefst að við gerum. Ég hef efasemdir um það og hef fært rök fyrir þeim.

Með sama hætti er nauðsynlegt að þegar við tökum ákvörðun um hvernig við verjum sameiginlegum fjármunum okkar veltum við fyrir okkur hvort við tryggjum að sú þjónusta sem á að fást fyrir þá fjármuni sem er fyrir skjólstæðinga okkar, kjósendur og almenning, sé með þeim hætti að við fáum raunvirði, fáum það sem við eigum að fá fyrir fjármunina. Þá skiptir engu hvort það er ríkið sjálft sem veitir þá þjónustu eða einkaaðilar. Við eigum nefnilega að leita allra leiða til að veita þjónustu sem við erum sammála um að ríkið eigi að tryggja með sem hagkvæmustum hætti. Það þýðir að við eigum að standa keik og vera samstiga í því að nýta kosti einkaframtaksins þegar það er hagkvæmt og við eigum að nýta kosti ríkisrekstrarins þegar það er skynsamlegt.

Þetta á allt að geta unnið saman án þess að verið sé að búa til einhverja tortryggni eða ala á einhverri öfund. (Forseti hringir.) Ef okkur tekst að fara í gegnum þessa umræðu, hæstv. forseti, er nokkur rekspölur að baki.