149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni andsvarið. Það hefði verið betra ef hann hefði farið aðeins nánar út í þjóðarsjúkrahúsið við Hringbraut og þau mistök sem eru í gangi þar, því miður. Ég er sannfærður um að sagan mun segja það og sanna að fyrirhugaðar framkvæmdir voru og eru óskynsamlegar.

Ég hjó eftir því í andsvari hv. þingmanns við andsvari hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar að hann er áhugasamur um að selja Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Er verið að leggja grunn að því í bakherbergjum Sjálfstæðisflokksins nú þegar vel gengur í þjóðarbúskapnum að fara að selja ríkiseignir einhverjum sem þeim eru sérstaklega þóknanlegir? Væntanlega. En er það stefna flokksins, ég spyr hv. þingmann, að selja Flugstöð Leifs Eiríkssonar? Það væri gott að fá það svar hér og nú hvort þegar sé byrjað að leggja grunninn að því. Það væri svo sem alveg eftir Sjálfstæðismönnum að fara að vinna að því svona baka til og leggja svo fram fyrir ríkisstjórnina og ríkisstjórnarsamstarfið þegar nær dregur kosningum. Það væri gott að hv. þingmaður kæmi inn á það mikilvæga mál.