149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:35]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Það er alveg rétt hjá honum enda verður umræða hér á morgun um hvernig við förum með fjármunina í einstökum liðum. Þá kemur það sem hann ber saman, sem er vissulega flókið, að bera saman peninga og líf, en það er ekki bara spurning um peninga þótt það sé oft. Við höfum gert vel og forgangsraðað sem sést vægast sagt á þessu fjárlagafrumvarpi en það snýst ekki heldur bara um peninga því að líf snúast líka um það hvernig við ætlum að hátta heilbrigðisþjónustunni, hvort sjúklingarnir séu í forgangi og í grunninn það mikilvægasta í kerfinu eða kerfið sjálft og ríkið. Ég held að það sé kannski helmingur á við peningana hvað skiptir miklu máli að gera kerfið rétt, hvernig við ætlum að hagræða því en ekki aðeins peningarnir.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði um geðheilbrigðisstefnuna. Fyrsta geðheilbrigðisstefnan var sett hér fyrir nokkrum kjörtímabilum og er nú að fullu fjármögnuð. Þar er ærið verkefni. Við sjáum líka í löndunum í kringum okkur að það hefur reynst flókið því að það hefur stækkað gríðarlega mikið á síðustu árum, en ekki síst vegna þess að umræðan er komin á miklu hærri stað þar sem fólk er óhræddara við að tala. Ég er nefnilega ekki viss um að vandamálið sé miklu stærra í dag en það hefur verið áður. Fólk er óhræddara við að tala um það, umræða um geðheilbrigðismál og þau líf sem við missum vegna geðheilbrigðismála er miklu meira uppi á yfirborðinu. Þess vegna gleðst ég yfir því hvernig við höfum brugðist við með bæði skýrri geðheilbrigðisstefnu og fjármagni.