149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekkert að fara lengra út í þessa samlíkingu með umferðina, en maður fer auðvitað út í umferðina með beltin spennt, keyrir varlega. Þannig er nú í efnahagsmálunum að við horfum fram á veginn á grundvelli opinberrar þjóðhagsspár. Þegar menn koma og segja: En hvað ef það gerist eitthvað allt annað en menn spá fyrir um í náinni framtíð? Þá er svo sem í fyrsta lagi það að segja að maður ætti ekki að byggja á einhverri allt annarri spá en þeirri opinberu, hvorki þegar hún er bjartsýnni né svartsýnni. Hins vegar skiptir öllu máli að vera búinn að búa í haginn og nýta góða tíma til þess að vera þá í stakk búinn til þess að takast á við slíkar aðstæður. Ég tel mig hafa fært rök fyrir því hér að við höfum gert það. Það er enginn glannaskapur fólginn í því hvernig við leggjum þessi mál upp.

Hins vegar langar mig til að koma hingað upp aðeins til þess að ræða um gjaldmiðilinn. Þegar krónan styrkist og styrkist, heldur áfram að styrkjast vegna þess að samsetning hagkerfisins er að breytast, gjaldeyrir flæðir inn út af fleiri ferðamönnum, ný þjónustugrein verður til, þá er gjaldmiðillinn að gera nákvæmlega það sem við ætlum honum að gera. Það getur í mínum huga ekki verið markmið að hafa stöðugan gjaldmiðil og hafa hann bara alltaf stöðugan óháð því sem er að gerast í hagkerfinu, þá gerir gjaldmiðillinn ekki það sem hann ætti að vera að gera. Það hefði t.d. verið mjög hættulegt að binda íslensku krónuna fasta við evruna og skipta síðan yfir í evru á mjög veikri krónu og fara í gegnum það sem gerst hefur síðan með stórauknum komum ferðamanna með gjaldmiðil sem endurspeglar einhvern allt annan veruleika, kulnun á myntkerfi evrunnar. Þá lenda menn í svipaðri krísu og Svíar hafa dálítið verið að glíma við þar sem þeir hafa bara alls ekki neina stjórn á málum.