149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra enn á ný og fagna því mjög ef fram kemur mál sem varðar það að við breytum vísitölugrunninum þannig að húsnæðisliður fari þar út. Ég mun verða fyrstur manna til þess að ýta á já-takkann við því ef slíkt mál kemur til afgreiðslu og atkvæðagreiðslu.

Hvað varðar þær nýju hugmyndir sem hæstv. ráðherra færði fram um sameiningu ríkisskattstjóra og tollstjóra með einhverjum hætti, að öllu leyti eða að hluta, þá kannast ég við að slíkt hafi verið gert í bæði Danmörku og Noregi, ef ég man rétt, og ég held að deildirnar tvær séu enn þá samspyrtar, ef við getum orðað það þannig. Ef slík gjörð verður til þess að auka slagkraft á báðum stöðum gleðst maður náttúrlega yfir því. En ég ætla enn að ítreka samt sem áður að inn í þennan málaflokk vantar þó nokkurt fé. Ég vænti þess að við 2. umr. fjárlaga muni fjárlaganefnd, undir dyggri forustu hv. þm. Willums Þórs Þórssonar, sem er baráttumaður og kemur sterkur inn í seinni hálfleik, hafa forgöngu um að breytingar í þá veru fari inn í frumvarpið þannig að ég og hæstv. ráðherra getum aftur við 2. umr. tekið umræðu um að þau mál hafi færst til þess vegar sem ég ræddi áðan í ræðu minni. Ég myndi fagna því mjög vel því að það ríður á miklu að við sinnum því.

Ég segi aftur: Stéttirnar sem við erum að tala um eru búnar að vinna mjög erfiða vinnu í mjög mörg ár. Við erum þarna komin með viðvarandi heilsuleysi út af slæmum aðbúnaði og miklu álagi. Við megum ekki láta þessar stofnanir molna niður vegna þess að við höfum ekki döngun í okkur til að skapa þeim það fjárhagslega svigrúm sem þær þurfa.