149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:25]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Það er alltaf ákveðinn spenningur þegar fram kemur nýtt fjárlagafrumvarp á hverju hausti. Það er ákveðinn upptaktur að vetrarstarfinu og eins og hv. þingmenn gera sér grein fyrir þá markar þessi umræða og þetta mál, þ.e. fjárlögin, dálítið mikið hvað verður og hvernig árið í heildina leggst. Það er margt í þessu fjárlagafrumvarpi sem verður hægt að ræða. Ég mun halda mig hér við breiðu drættina, þ.e. ekki fara ofan í smáatriði í málaflokkum heldur reyna frekar að fara yfir það í ræðum þegar einstakir ráðherrar koma til svara.

Ég vil byrja á að fagna þeirri átt sem skattkerfisbreytingarnar í frumvarpinu ganga í, þ.e. það er farið að þeim sjónarmiðum sem hefur verið talað mjög mikið fyrir úti í samfélaginu af mörgum stjórnmálaflokkum að láta skattkerfisbreytingar ganga í þá átt að þær gagnist þeim tekjuminnstu mest. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Það er mikið fagnaðarefni.

Áður hefur verið stigið skref í þá átt að auka byrðarnar á þeim sem eiga mest í samfélaginu, þ.e. með hækkun á fjármagnstekjuskattinum, sem er í raun skattkerfisbreyting sem gengur í sömu átt. Við erum að stíga þau skref að dreifa byrðunum á þær herðar sem helst geta borið þær. Þetta er mikilvægt.

Í fjárlagafrumvarpinu er áfram haldið í þá átt sem allir stjórnmálaflokkar lögðu til fyrir síðustu kosningar, þ.e. að bæta í innviðauppbyggingu. Við getum áreiðanlega flest, bæði úr okkar kjördæmum og horft á landið í heild, fundið verkefni og fundið staði þar sem hægt væri að gera meira og betur, sem hægt væri að leggja meiri peninga í og hærri fjárhæðir og fundið ný verkefni.

Engu að síður, svo við tökum dæmi, erum við til að mynda í heilbrigðiskerfinu að bæta við 15 milljörðum. Við höldum áfram með uppbyggingu Landspítalans sem er mikið fagnaðarefni fyrir heilbrigðiskerfið í heild og við höldum áfram að bæta í félagslegu þættina. Allt þetta skiptir máli.

Þessi ríkisstjórn hefur tekist á við grundvallarbreytingu í umhverfismálum og tekur risastór skref í þá átt að bæta fjármunum þar inn. Til að mynda eru framlög til náttúruverndarmála, þjóðgarða, landgræðslu og skógræktar aukin um rúmlega 20% á milli ára. Það hefðu einhvern tímann þótt tíðindi hér í þessum sal.

Barnabætur hækka og þannig mætti lengi telja.

Framlög til menntamála, ég tek undir það með mörgum sem hér hafa talað að þau hefðu mátt hækka meira, en á hitt er að líta að það er búið að stytta framhaldsskólann og þrátt fyrir að búið sé að stytta framhaldsskólann í þrjú ár þá halda heildarframlög til framhaldsskólanna sjó, að raungildi er nánast sama upphæð á milli ára. Þarna er kannski skýringin.

Við höfum á þessu ári eins og hv. þingmenn þekkja bætt verulegum fjárhæðum inn í samgöngumálin. Það er haldið áfram á þeirri braut í þessu fjárlagafrumvarpi.

Þingmönnum hefur orðið nokkuð tíðrætt um vaxtabætur. Ég ætla að taka nokkrar vangaveltur um þær í ræðu minni. Heildarfjárhæðin í þessu frumvarpi til vaxtabóta lækkar lítið eitt, lækkar um 400 eða 500 milljónir á milli ára í krónum. En ég vil kannski taka umræðuna miklu fremur um þetta: Er hugmyndafræðin á bak við það að ríkið sé að greiða niður vexti fyrir banka, er hún rétt? Er þetta rétt hugmyndafræði? Eigum við kannski frekar og er kannski orðið löngu tímabært að við hættum að hugsa þetta með þessum hætti? Er þessi aðferð í rauninni ekki bara arfleifð af þeirri hugmyndafræði sem var nánast klöppuð í stein fyrir ekkert svo rosalega mörgum árum að það eina sem gæti verið markmið í lífi hvers manns væri að eignast einhvers staðar steinsteypu þegar hið raunverulega verkefni stjórnvalda ætti miklu frekar að vera að tryggja mönnum örugga búsetu, tryggja það að allir hafi þak yfir höfuðið?

Það skiptir máli af hvaða fæti maður stígur fyrst þegar maður fer inn í þessa umræðu, hvort maður fer inn í hana þannig að vaxtabæturnar séu upphaf og endir alls, vegna þess að þannig geti fólk eignast húsnæði, eða hvort húsnæðisbætur eigi að vera málið vegna þess að þá tryggjum við fólki þak yfir höfuðið. Það skiptir verulegu máli hvernig við hugsum þetta.

Það má alveg velta því fyrir sér hvort vaxtabæturnar séu ekki einmitt einn þátturinn í því að halda uppi vaxtastigi í landinu. Það þarf enginn að segja mér að ef það væru engar vaxtabætur og við værum með húsnæðisstuðning í einhverju öðru formi myndu bankarnir treysta sér til þess að halda vöxtunum eins háum og þeir gera í dag. Hugsið um það, hv. þingmenn.