149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

lengd þingfundar og fyrirkomulag fjárlagaumræðu.

[09:31]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Samkomulag er um það milli forseta og þingflokksformanna að þingfundur geti í dag staðið lengur en til kl. 20, þ.e. þar til síðari hluta 1. umr. um fjárlög 2019 er lokið.

Ráðherrar gera nú grein fyrir sínum málaflokkum og taka þátt í umræðum um þá. Samkomulag er um fyrirkomulag umræðunnar. Ráðherrar hafa fimm mínútur til framsögu. Svo getur einn þingmaður frá hverjum þingflokki beint fyrirspurn til ráðherra og hefur til þess tvær mínútur tvisvar sinnum. Þó geta þingflokkar ákveðið að tveir þingmenn tali frá flokki og fái þá aðeins tvær mínútur hvor. Andsvör verða ekki leyfð.

Röð ráðherranna verður eftirfarandi: Forsætisráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, heilbrigðisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra og að síðustu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Við lok umræðunnar talar fjármála- og efnahagsráðherra í allt að tíu mínútur, talsmenn þingflokka í allt að tíu mínútur hver og loks koma lokaorð frá ráðherra í fimm mínútur. Andsvör verða ekki leyfð nema á eftir lokaorðum ráðherra.

Forseti vill einnig beina þeim eindregnu tilmælum til hv. þingmanna og hæstv. ráðherra að þeir virði tímamörk. Það er langur dagur fram undan og forseti mun því ekki sýna mikið umburðarlyndi ef menn fara fram yfir umsaminn ræðutíma.