149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[09:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég hjó eftir því að hann talaði um að við hefðum engar greiningar sem væru í takt við raunveruleikann. Þá rifja ég upp fyrir mér orð hagfræðings sem ég þekki sem sagði að hagfræðingar væru í raun guðfræðingar okkar tíma, þeir væru aðeins að spá fyrir um hlutina út frá trúnni og helstu væntingum. Ég sé hagfræðing í salnum sem horfir á mig strangur á svip núna. En að öllu gamni slepptu vil ég svara þeirri spurning hv. þingmanns hvort við eigum ekki að hætta með íslensku krónuna þannig að það er ekki mín trú. Hafandi lesið þær greiningar sem liggja fyrir hefur ítrekað verið bent á að hinn raunhæfi valkosturinn sé að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru og það tel ég miklu stærri ákvörðun en svo að hún eigi eingöngu við um peningastefnuna.

Aðrar millileiðir sem hafa verið nefndar, og ég nefni þar til að mynda myntráðsleið sem hefur verið nefnd sérstaklega í þessum sal, tel ég ekki trúverðugar. Ég hef ekki tíma til að fara í það en vona að ég fái spurningu um það síðar, ef ég er heppin.

Það er hins vegar mikilvægt að við styrkjum ramma peningastefnunnar, það er hárrétt hjá hv. þingmanni. Þetta eru þrír þættir: Vinnumarkaðurinn, ríkisfjármálin, peningastefnan. Hvernig getum við styrkt peningastefnuna? Við erum með ítarlega skýrslu með tillögum m.a. um fasteignaliðinn sem hluta af neysluvísitölunni, þar sem lagt er til að hann verði tekinn út. Lagt er til að fjármálastöðugleiki fari að spila stærra hlutverk við stjórn peningastefnunnar. Þar er lagt til að það verði beinlínis jafngilt verðbólgumarkmiði sem er umræða sem ég tel að við eigum eftir að taka betur á á vettvangi þingsins, hvort við teljum það skynsamlega ráðstöfun.

Í öllu falli liggur fyrir að ég mun leggja til breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands þar sem atlaga verður gerð að því að styrkja ramma peningastefnunnar. Hins vegar eigum við að mínu viti eftir að ræða á vettvangi þingsins þær tillögur sem nefnd sem fyrrverandi ríkisstjórn skipaði um endurskoðun peningastefnunnar (Forseti hringir.) skilaði þannig að við fáum þá efnislegu umræðu sem mér finnst hv. þingmaður kalla eftir. Ég myndi vilja óska eftir því við forseta að tækifæri gæfist til að gera grein fyrir niðurstöðu þeirrar skýrslu til að fá þá umræðu fram.

(Forseti (SJS): Við höfum ekki tíma í það núna.)