149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:10]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Það kemur kannski ekki á óvart að ég ætla ekki að gagnrýna hæstv. forsætisráðherra fyrir að auka ríkisútgjöld ekki nægilega mikið. Það sem er alveg ljóst að í fjárlagaupplegginu núna er vissulega af ákveðnum metnaði lagt upp í ýmisleg og mikilvæg verkefni og forgangsröðun svipuð og hjá síðustu ríkisstjórn, að setja velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið í algjöran forgang í uppbyggingu.

Það sem ég sakna hins vegar mjög mikið í uppleggi ríkisstjórnarinnar, þessarar eyðslustjórnar, er að það er engin ráðdeild, það er engin leið í rauninni að meta árangurinn af þeirri útgjaldaaukningu sem hér er verið að heita, sem er fordæmalaus, myndi ég fullyrða. Því að ef áform fjármálaráðherra ganga eftir munum við auka ríkisútgjöld á hvern íbúa landsins um tæplega fimmtung á gildistíma fjármálaáætlunar. Ég held að slíkt hafi ekki gerst í seinni tíð, á föstu verðlagi, að ríkisútgjöld séu aukin svo mikið.

Þess vegna sakna ég mælikvarða á árangur, t.d. af auknum útgjöldum í heilbrigðiskerfinu. Hver er árangurinn í að stytta biðlista eða sinna þjónustunni betur, að sjúklingar séu raunverulega að njóta góðs af því, því að enn heyrum við fréttir af miklum biðlistum, jafnvel er verið að senda fólk utan í aðgerðir sem hægt væri að sinna hér, en er þó hægt að sinna á stöðum sem stjórnvöldum eru ekki þóknanlegir að því er virðist, og raun virðist að með stórkostlegum kredduhætti sé verið að setja heilbrigðiskerfið okkar í mikla hættu.

Víðar mætti bera niður í þessum efnum. Það er nefnilega svo að það er ekki alltaf trygging á árangri að auka útgjöld og það er svo sannarlega mikilvægt eftir jafn mikla útgjaldaaukningu og verið hefur, þegar við horfum á 200 milljarða útgjaldaaukningu hjá ríkissjóði á undanförnum fimm árum, að það hlýtur að þurfa að horfa til þess hverju þetta hefur skilað og hvar við getum gert betur. Þess sakna ég mjög í forystu forsætisráðherra fyrir þessari ríkisstjórn, að leggja ríkari áherslu á þetta.