149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:24]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst ætla ég aðeins að vísa í orð hv. þingmanns um að betra væri ef ekki væri þörf á slíkum stuðningi. Ég bendi þá á að í hinu alþjóðlega umhverfi sem hv. þingmaður vísar til og við viljum öll vera partur af er ívilnun, vegna þess að löndin keppast um (Gripið fram í.) sterkasta fólkið okkar, að fá fólkið sem vinnur við að fá góðar hugmyndir og búa til úr þeim verðmæti. Ég er talsmaður þess að í staðinn fyrir að vera með ómarkvissan stuðning við ýmislegt og alls konar tökum við ákvörðun um hvar raunhæft sé að við verðum framúrskarandi og það er í rannsókn og þróun. Svo eru afleiddu áhrifin af því að vera með öflugt rannsóknar- og þróunarumhverfi ótvíræð og ótrúlega mikil. Við sjáum það t.d. í sjávarútvegi.

Ég held að ef við lítum á markaðssetningu sé frekar langsótt að ætla að Ísland verði framúrskarandi á því sviði, einfaldlega vegna þess að við erum smá og fá og langt í burtu. Það eru slíkar ákvarðanir sem mér finnst skipta máli að við tökum, en ekki að við ætlum okkur að verða rosalega góð í öllu.

Varðandi hækkun á þakinu mun það taka gildi fyrir fyrirtækin árið 2019. Þau geta gert ráð fyrir því að frá 1. janúar og út árið sé það endurgreiðsluhæft. Það var ekki gert árið 2018 vegna þess að ekki vannst tími til þess við ríkisstjórnarskipti o.s.frv. En áhrifin koma síðan árið 2020.

Af því að hv. þingmaður spyr hvort hægt sé að treysta á þetta og hvað ef forsendur breytast sem kallar á að menn líti yfir öll útgjöld hjá hinu opinbera myndi ég segja að það væri einmitt þá sem við þyrftum slíka innspýtingu og slíkt umhverfi til þess að fá fólkið okkar sem býr til verðmætin, vegna þess að það gerum við ekki, það er fólkið (Forseti hringir.) í landinu sem býr til verðmætin og við viljum halda því hér og fjárfesta í því til þess að hjálpa okkur út úr slíkri stöðu.