149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:41]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra. Heilbrigðisþjónustan er snúinn og krefjandi málaflokkur. Landsmenn treysta á vandaða uppbyggingu og trausta umgjörð, reiða sig á opinberu þjónustuna og vilja veg hennar sem mestan, raunar að hún sé í algjörum forgangi. Það hefur þjóðin ítrekað látið í ljós í könnunum og áskorunum. Það er kannski ekki sanngjarnt að segja að stjórnvöld skelli alveg skollaeyrum við ákalli almennings í frumvarpi því sem nú liggur fyrir. Þau sýna málamyndalit en blása sannarlega út bæði fyrir sjálfum sér og öðrum með ríkulegum hætti það litla sem gert er.

Sjúkrahúsaþjónustan fær einungis 2,5 milljarða kr. hækkun sem rímar nokkurn veginn bara við hækkandi aldur og íbúafjölgun. Þetta er ríflega helmingurinn af því sem landsbyggðin taldi sig hafa þörf fyrir og þá eru eftir aðrar sjúkrastofnanir, Sjúkrahúsið á Akureyri og sjúkrasvið annarra heilbrigðisstofnana sem um árabil hafa búið við erfið kjör, bæði varðandi rekstur og viðhald húsnæðis. Þarna er ekki verið að auka við og styrkja.

Liðskiptaaðgerðum verður að öllum líkindum ekki fjölgað og erfiðar aðgerðir í þágu kvenna svo dæmi sé tekið verða ekki fleiri en verið hefur, biðlistar munu lengjast að óbreyttu. Ofan í kaupið er svo gerð aðhaldskrafa upp á 402 millj. kr. til sjúkrahúsanna.

Er ráðherra virkilega sáttur við að bera þetta á borð?

Heilsugæslan í landinu hangir á horriminni, þessi mikilvægasta grunnþjónusta í heilbrigðiskerfinu. Það eru ekki merki um viðsnúning á landsbyggðinni hvað heilsugæsluna varðar og það eru engin teikn um það í fjárlagafrumvarpinu að þetta sé slíkt áhersluatriði sem aðstæður hrópa á. Heilsugæslustöðvar hafa víða ekki lengur fjármuni til að fastráða til sín lækna en treysta á farandþjónustu. Er þetta það sem við munum búa við, hæstv. ráðherra?