149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:23]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin og hvet hann til dáða í þessum efnum. Það verður sjaldan ofsagt, mikilvægi þessara þátta í forvörnum, og skiptir miklu máli að grípa snemma og örugglega utan um einstaklinga sem hafa lent í slíku ofbeldi.

Ég vil líka nefna heilbrigðisstefnuna sem ég hef áður nefnt í þessum stól og mikilvægi þess að vinna að stefnumörkun innan heilbrigðisþjónustunnar og bregðast við sem fyrst sem þannig að við getum tekist á við þetta stóra verkefni með fagmennsku að leiðarljósi. Ég fagna því að lögð er áhersla á það og enn þá er verið að vinna að þessu plaggi.

Virðulegur forseti. Ég fagna einnig þeim markmiðum sem má finna í tillögum að fjárlögum að það eigi að beina kastljósinu að þörfum aldraðra sem glíma við samþættan geðheilbrigðis- og fíkniefnavanda.

Þá langar mig aðeins að nefna málaflokk fatlaðra einstaklinga í sama vanda. Þá er ég að tala um fólk með þroskaskerðingu og er með áfengis- og fíkniefnavanda. Aðstandendur þessa hóps hafa oft komið að lokuðum dyrum og lítið er fjallað um þetta málefni og engin úrræði í raun til fyrir þennan hóp.

Mig langar því að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort einhver vinna sé hafin til að koma til móts við þennan hóp eða hvort hún viti eitthvað um það. Annað var það ekki í bili.