149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að óska hv. þingmanni til hamingju með jómfrúrræðuna sína. Ég verð að segja að það var mjög snöfurmannlega gert að tala hér blaðlaust í þessum dagskrárlið og sýnir að viðkomandi hefur örugglega yfir reynslu að ráða.

Mig langar til að nefna varðandi þá mikilvægu þætti sem hv. þingmaður nefndi hér, og ætla að taka áskorun hennar um að fara dýpra ofan í skúffuna og skoða hvað þar er, að ég hef átt fundi með þeim sem best þekkja til í þessum efnum og sérstaklega sjúkraþjálfurum. Ég hef verið mjög hugsi yfir því hversu mikilvægt það er að þessi þjónusta sé aðgengileg þannig að hún sé valkostur í flóru heilbrigðisúrræða ef svo má segja. Það er mín trú og vissa að þjálfun sé oftar en ekki leið til þess að koma í veg fyrir til að mynda ofnotkun verkjalyfja sem er sjálfstætt viðfangsefni og við höfum verið að ræða hér.

Í ágætri skýrslu sem ég fékk um að stemma stigu við ofneyslu slíkra lyfja var á það bent að við þyrftum fleiri úrræði til að takast líka á við kvíða, þunglyndi, ADHD, svefnvandamál o.s.frv. og þau kynnu að vera fólgin í öðrum atriðum en þeim sem við erum vön að hugsa um. Það er gríðarlega mikilvægt en ekki síður í þeim þáttum sem hv. þingmaður nefnir hér. Af því að hér hefur verið í samfélaginu mikil umræða um til að mynda göngudeildarþjónustu á spítala og allt sem henni fylgir þurfum við að muna að þegar maður er kominn inn á t.d. Landspítalann – háskólasjúkrahús eða Sjúkrahúsið á Akureyri eða öfluga heilbrigðisstofnun erum við þar með aðgang að þessum stéttum líka. Þar getur þjónustan komið best til móts við þessa þörf, (Forseti hringir.) sérstaklega þegar um er að ræða langveikt fólk sem er með flókna samsetta sjúkdóma sem (Forseti hringir.) verða ekki leystir á einfaldan hátt með samtali við einn sérfræðing.