149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Þetta er örugglega ekki í síðasta skiptið sem við tölum saman, en ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og hugleiðingar. Mér finnst hennar innlegg í þessa umræðu halda okkur við efnið í því að muna eftir því hversu mikilvægt er að hlusta á þá sem hafa reynsluna, sem hafa þekkinguna af því að vinna verkin og vinna vinnuna. Þess vegna finnst mér afar mikilvægt þegar við erum að vinna okkar heilbrigðisstefnu sem stendur núna yfir að sú vinna verði, eftir því sem henni vindur fram, í sífellt opnara ferli, þ.e. að raddir af þessu tagi geti komið inn í umræðuna. Að sumu leyti er það sem hv. þingmaður bendir á komið til framkvæmda einhvers staðar, þ.e. aukin áhersla á sveigjanleg úrræði í geðheilbrigðisþjónustu. Eitt af því sem við erum auðvitað að halda til haga er aukin áhersla á andlega heilsu í heilsugæslunni. Við höfum kannski til skamms tíma fyrst og fremst litið á heilsugæsluna sem vettvang fyrir líkamlega kvilla en annað hafi átt heima annars staðar. Nú erum við í sífellt ríkari mæli farin að hugsa sem svo að þetta sé allt ein og sama manneskjan og allt eitt og sama heilbrigðisviðfangsefnið ef svo má að orði komast. Ef manni líður illa í andanum er hætt við því að manni fari að líða illa annars staðar og öfugt.

Hv. þingmaður bendir líka á þá staðreynd hversu mikilvægt það er að það sé eftirfylgni eftir meðferð og að opin úrræði standi fólki til boða eftir slíkt. Þar koma auðvitað geðheilbrigðisteymin sterk inn, að viðkomandi geti án þess að þurfa að fara í gegnum eitthvert flókið ferli að panta sér tíma o.s.frv., geti leitað til heilsugæslunnar þegar hefðbundinni meðferð er lokið eða þegar hlé er á henni eða hvað annað er þar undir. Nú er ég í sömu stöðu og hv. þingmaður og gæti sagt ýmislegt meira en tíminn er búinn.