149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:37]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þótt tíminn sé stuttur langar mig að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að sýna í verki áherslur sínar í geðheilbrigðismálum. Það var sannarlega tímabært.

En það er rétt að vinda sér í spurningar. Það fyrsta sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um varðar greiðslukerfið sem liggur undir kaupum heilbrigðisyfirvalda á heilbrigðisþjónustunni. Ég spyr: Hver er ástæða þess að ríkissjóður greiðir ekki sama verð fyrir sömu verk alls staðar í kerfinu, óháð því hvar því verki er sinnt, hvort um er að ræða mismunandi landsvæði, almenna sjúkrahúsþjónustu eða í gegnum samninga hjá Sjúkratryggingum Íslands? Af hverju gildir t.d. annað verð fyrir hjúkrunarrými í heilbrigðisstofnun í ríkisrekstri en fyrir hjúkrunarrými á rammasamningum hjá Sjúkratryggingum? Af hverju á að fjármagna aðgerðir á Landspítala með öðru verði en sömu aðgerðir á sjúkrahúsi á Akureyri eru fjármagnaðar, hjá öðrum heilbrigðisstofnunum eða öðrum læknastofum?

Hvað fer t.d., ef hæstv. ráðherra getur svarað því, stór hluti af auknum framlögum til sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu til að tryggja Landspítala öðruvísi verðlagningu á eðlilegri fæðingu en Heilbrigðisstofnun Vesturlands fær?

Þetta eru vissulega atriði sem núverandi heilbrigðisráðherra ber ekki ábyrgð á ein en það er ekki annað að sjá í því frumvarpi sem við höfum hér en að þessi óheillaþróun haldi áfram að vinda upp á sig. Ráðherrar síðustu ríkisstjórna stöldruðu við og reyndu að vinda ofan af þeirri óheillaþróun. Ég nefni sem dæmi greiðslukerfi sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tók upp og notaði, bæði fyrir ríkisreknar og einkareknar heilsugæslur í höfuðborginni. Þetta sama greiðslukerfi átti síðan að taka gildi fyrir heilsugæslur á landsbyggðinni. Ég get ekki séð þess merki í fjárlögunum.

Ég spyr: Hefur ráðherra snúið af þeirri braut að hafa sama greiðslukerfi fyrir allar heilsugæslur landsins?

Ég held að ég komist ekki lengra núna en treysti því að ég fái svör við spurningunum svo ég geti undið mér í önnur mál í næstu umferð.