149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:23]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er fullkomlega eðlilegt að menn vilji fá svör en ekki útúrsnúninga en þá verða spurningarnar líka að vera án fullyrðinga sem eru rangar. Þess vegna þarf maður að svara þeim. Ég er til að mynda með kaflann um markmiðin og ég get ekki séð að verið sé að forgangsraða gegn höfuðborgarsvæðinu. Hérna hafa verið settir ákveðnir hlutir. Við erum með ótal framkvæmdir í gangi. Ég veit ekki hvernig í ósköpunum hv. þingmanni hefur tekist að skilja það svo að Vestfirðir verði settir á áframhaldandi bið, af því það er ekki skýrt í hvaða línu eigi að fara. Það er skýrt að það er til. Það eru mismunandi leiðir, það er ekki búið að taka ákvörðun. Í því er m.a. við þennan sal að sakast, en líka stjórnkerfið í heild sinni. Eins og ég hef áður sagt, og ég býst við að hv. þingmaður sé mér sammála um það, er það er hörmungarsaga stjórnsýslunnar frá A til Ö hvernig þetta hefur verið látið dankast, sem hefur komið niður á lífsgæðum þeirra sem búa þarna og fara um svæðið.

Ég get alveg fullyrt og tek undir með hv. þingmanni að við skulum sameinast um að koma því kerfi í gang. Þess vegna er svo mikilvægt að við horfum á stóru forgangsröðina, án þess að við séum að ræða samgönguáætlun, sem er erfitt að sleppa vegna þess að hún skiptir miklu máli. En stóra forgangsröðunin er sú að við þurfum að klára grunnkerfið á Íslandi. Það erum við ekki búin með. Vestfirðirnir standa þar að stærstu leyti út af, suðurfirðirnir. Ég held að við hljótum að geta sammælst um það í þessum sal að það er eitt af því sem við þurfum að ljúka. Þar eru umtalsverðar framkvæmdir, bæði vegurinn um Gufudal eða á því svæði, Dýrafjarðargöngin, Dynjandisheiði og tengingarnar þar. Þetta eru umtalsverðir fjármunir. En grunnkerfið er eftir. Það þurfum við að setja í mikinn forgang en um leið (Forseti hringir.) umferðarþyngstu leiðirnar á höfuðborgarsvæðinu og slysastaðina. Þetta er flókið.