149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[17:16]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Mér er sómi að því að standa hér í dag og fá að taka þátt í umræðu um þennan ómetanlega samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég vil sérstaklega þakka frummælanda og tillöguflytjanda, Ágústi Ólafi Ágústssyni. Í raun og veru getum við sagt að það er hafsjór á milli þess að hafa fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og að taka það stóra skref sem við erum að óska eftir hér í dag um að löggilda samninginn.

Við munum það upp úr 1950 þegar við fullgiltum mannréttindasáttmála Evrópu að þá var talið nóg að gera slíkt og talið að það væri nú kannski engin ástæða til að ætla að Ísland myndi ekki fylgja honum skýrt og skilmerkilega. En hvað kom á daginn? Mannréttindasáttmálinn var síðan löggiltur árið 1993 og það gerbreytti allri réttarstöðu Íslendinga miðað við það sem hafði verið undir einungis fullgildingu mannréttindasáttmálans.

Ég er náttúrlega fötluð, varanlegur lögblindur 75% öryrki. Líf mitt, sem dæmi, hefði verið svolítið mikið öðruvísi hefði mér auðnast sú gifta að hafa löggiltan samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þegar ég var að ganga út í lífið, í því sem laut að námi, aðgengi og tilliti til þarfa, t.d. mín sem barns og unglings, það er sennilega hafsjór þar á milli.

Þeir ágætu ræðumenn sem hafa talað hér á undan hafa farið djúpt í samninginn, í markmiðin og allt það sem hann hefur að bjóða, en mig langar meira til að segja frá því hvernig hlutirnir hafa þó verið stigvaxandi að ganga í þá átt að koma til móts við fatlað fólk þó að við séum bara að byrja vegferðina. Ég leitaði t.d. fyrir mér á námsferlinum, reyndi að fara í skóla, fara í framhaldsskóla, fara í háskóla. En það voru engin úrræði. Það var enginn löggiltur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í rauninni voru úrræðin af skornum skammti vegna þess að það var engin skylda til að vera með nein úrræði. Það var góður vilji en ekkert fjármagn, ekkert til að styðja við það. Við höfum séð í skólakerfinu, menntakerfinu, sérstaklega á framhalds- og háskólastigi, hvernig duglegir fatlaðir einstaklingar hafa þurft frá að hverfa vegna þess að þeim var ekki búinn sá grunnur sem þeir þurftu á að halda til að geta lært.

En við sjáum að þróunin hefur verið öll í þessa átt. Maður vill í rauninni ekki trúa því að ástæðan fyrir því að samningurinn hefur ekki verið löggiltur eru sennilega peningar. Það kostar að útbúa aðgengi fyrir fatlað fólk. Það kostar að rétta að okkur þá aðstoð sem við þurfum á að halda þegar við erum ekki fullfær um allt á við 100% heilbrigðan einstakling.

En hvað kostar það í stóra samhenginu þegar upp er staðið? Er kannski búið að vera að spara aurinn og kasta krónunni? Það er mannauður í fötluðu fólki. Við erum mannauður. Það sem löggilding þessa samnings um réttindi fatlaðs fólks mun í raun gera er að gefa okkur meiri kost á að taka fullan þátt í samfélaginu og að nýta það sem við fengum þó í vöggugjöf. Eins og ég hef oft sagt er nóg böl að vera jafnvel fangi eigin líkama og vera fatlaður og finna fyrir vanmætti þó svo að samfélagið sé ekki líka að þjappa því enn þá betur inn í kollinn á okkur að svona sé staðan og því miður verði henni ekki breytt.

En núna stöndum við hér og við getum breytt þessu, við viljum breyta. Það er þverpólitísk samstaða um það. Það var ólýsanlegt þegar hv. þingmaður og flutningsmaður las í upphafi ræðu sinnar alla þá sem eru meðflutningsmenn á þessari þingsályktunartillögu. Það var gleðiefni og í raun fékk ég svipaða tilfinningu, virðulegi forseti, og þegar við vorum að ganga inn í og löggilda NPA-þjónustuna, ómetanlega notendastýrða persónulega aðstoð fyrir mjög fatlað fólk. Þar má reyndar gera mun betur en þegar hefur verið gert, en ég ætla ekki að fara út í það.

Hins vegar segi ég: Það sem við erum að horfa upp á núna með því að lögfesta þennan samning Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk er að reyna af fremsta megni að gera fötluðum kleift að taka að minnsta kosti þátt í samfélaginu á sínum forsendum eins og þeir mögulega geta. Við sem hér erum eigum skilyrðislaust og ber skylda til þess að draga fram allt það besta og leggja okkur fram um að koma til móts við þarfir þeirra sem minna mega sín. Ef okkur auðnast sú gifta að þessi löggilding verði að veruleika, sem ég sannarlega vona, eigum við eftir að uppskera ótrúlegar breytingar í samfélaginu og fá aukinn mannauð, mannauð sem hefur legið í felum einhvers staðar og við höfum ekki einu sinni ímyndað okkur að væri til, hvort sem lýtur að tónlist, vísindum, tækni, lögum, hverju sem er. Fatlað fólk getur gert alla skapaða hluti ef því er einungis búinn grundvöllur til þess. Þá er ég að tala um almennt.