149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[17:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem ég styð heils hugar og tel að við eigum að ganga í fararbroddi í þessu máli. Ísland getur verið í fararbroddi í svo mörgu eins og við höfum sýnt.

Ég ætla bara að koma örstutt inn á þetta. Ég var hér þegar við vorum að lögfesta samninginn um barnasáttmálann. En af því að ég hef verið niðri í þingflokksherbergi að hlusta á umræðuna langar mig að nefna það að ég fékk upplýsingar sem mér fannst ekki samræmast því sem hv. framsögumaður sagði hér áðan. Mér skilst sem sagt að lögfestingin sé ekki á forræði velferðarráðuneytisins þar sem mannréttindasamningar og ábyrgð þeirra heyra samkvæmt forsetaúrskurði undir dómsmálaráðherra og þar með talinn þessi samningur.

Það er hins vegar starfandi stýrihópur hjá Stjórnarráðinu sem er að fjalla um mannréttindamál. Þar er verið að greina kosti og galla þess að fullgilda m.a. valkvæða bókun við þennan samning ásamt tveimur öðrum samningum. Ég held að það gæti verið skynsamlegt að beina því til dómsmálaráðherra í þessari umræðu, burt séð frá þessu máli og hvernig það svo fer í vinnslu til nefndarinnar, að stýrihópurinn skoði þetta mál líka þannig að ekki þurfi að bíða eftir því að nefndin ljúki störfum með þetta mál. Við vitum að það getur tekið drjúgan tíma eins og oft áður, jafnvel þó að þingmenn séu sammála um það. Það sitja fulltrúar allra ráðuneyta í þessum stýrihópi því að mannréttindamálin snerta jú öll ráðuneyti með einhverjum hætti eins og við þekkjum.

Þessi samningur var fullgiltur í september 2016. Við erum ekki búin að innleiða hann að öllu leyti enn þá. Á sínum tíma þegar við lögfestum barnasáttmálann var horft til þess að breyta lögum sem samræmdust ekki barnasáttmálanum áður en hann var lögfestur. Þessi samningur er náttúrlega risavaxið mál og það væri kannski skynsamlegt að hann væri rýndur með hugsanlegar lagabreytingar í huga sem gætu talist nauðsynlegar áður en við lögfestum hann. Burt séð frá því hvernig málið fer inn í nefndinni ættum við, og ég kannski geri það hér með, að skora á stýrihóp Stjórnarráðsins að taka þetta að sér og byrja að vinna í þessu nú þegar því að ég tel mjög mikilvægt að við náum að ganga fram með þetta sem allra fyrst.