149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

vextir og verðtrygging.

16. mál
[19:48]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Svo að ég gleymi því ekki þá er kannski tvennt sem ég hefði viljað nefna í fyrra andsvari: Fyrir það fyrsta er ekki allt ómögulegt í þessu. En það er rétt að húsnæðisliðurinn okkar er rangt reiknaður. Við höfum ágæta niðurstöðu peningastefnunefndar frá því í vor um það að við sjáum ekki fordæmi fyrir slíkum reikningsaðferðum í öðrum ríkjum og það eigum við að leiðrétta. Þetta er alveg út í hött enda sætir það furðu að við séum að hækka allan húsnæðishöfuðstól landsmanna á því að ein fasteign skipti um hendur eins og þetta er reiknað upp í dag. Ég fagna því og það þarf að laga.

Ég get líka sagt það með sanni að ef ég teldi þessa lausn virka þá væri ég meðal flutningsmanna á þessari tillögu; ég veit að ásetningurinn er góður. Það er ekki það sem ég er að gagnrýna. Ég bara hef sannfæringu fyrir því að þetta sé ekki lausnin.

Fákeppni á markaðnum er auðvitað áhyggjuefni. Kostnaðarstig bankakerfisins er áhyggjuefni. Að hluta til er það vandamál að við erum með óvenjuháa skattlagningu á fjármálakerfi sem við þurfum að laga.

Varðandi byggingu höfuðstöðva Landsbankans vekur það furðu mína eins og margra annarra að verið sé að byggja svo dýra byggingu á jafn dýrum stað hjá fyrirtæki í ríkiseigu. Því verður handhafi hlutabréfsins að svara, hverju það sætir. En það er alveg ljóst að ef við værum á myntsvæði sem aðrar fjármálastofnanir vildu starfa á — þetta er það sem maður heyrir ítrekað frá bönkum að þeir forðast áhættuna af því að starfa á jafn litlu myntsvæði og íslenska krónan er — værum við sennilega partur af samnorrænum bankamarkaði eins og hann er annars staðar á Norðurlöndunum og mundum njóta góðs af því í mun meiri hagkvæmni fjármálakerfisins en raun ber vitni.