149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Ég kýs að gera að umtalsefni mínu í dag, áratug eftir efnahagshrunið, stöðu ungs fólks á Íslandi, fólks sem nú er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið og hefur jafnvel hug á að stofna fjölskyldu. Þetta er kynslóðin sem var fyrir tíu árum að stíga sín fyrstu skref inn í fullorðinsárin og hefur ekki fengið leiðréttingu, fólkið sem á erfitt með að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Þau sem ekki ná að safna sér fyrir innborgun á íbúð til kaups festast á leigumarkaði þar sem lítið öryggi ríkir og stór hluti launa fer í að greiða fyrir það öryggi sem felst í fastri búsetu sem ætti að teljast sjálfsagt. Ef einstaklingur nær að safna sér fyrir íbúð eða fá lán frá velviljuðum ættingja getur viðkomandi fengið verðtryggt eða óverðtryggt lán hjá banka, en hvort er hentugra til lengri tíma er óljóst.

Komi ekkert upp á, líkt og þungun eða andlegt áfall, hjá einstaklingum sem ákveða að taka lán hjá LÍN til að mennta sig er óljóst hversu mikið lánið mun hækka á þeim áratugum sem það mun taka einstaklinginn að greiða það niður. Atvinnuhorfur sérfræðimenntaðra einstaklinga eru einnig mjög óljósar þar sem sú stefna virðist hafa verið tekin að atvinnuuppbygging feli í sér að byggja verksmiðjur frekar en að stuðla að nýsköpun og tækniþróun.

Verði þessi kynslóð alvarlega veik er óljóst hvort heilbrigðiskerfið muni greina sjúkdóminn nægilega snemma. Gerist það er einnig óljóst hvort heilbrigðiskerfið verði í stakk búið til að aðstoða einstaklinginn á fullnægjandi hátt. Samt verðum við hissa þegar við heyrum að ungt fólk kýs að búa erlendis. Við erum hissa þegar við heyrum að fæðingartölur á Íslandi hafi fallið gríðarlega mikið síðustu ár. En af hverju ættum við að vera hissa? Hver er hvatinn fyrir ungt fólk að ákveða að koma sér upp heimili, starfa og ala upp börnin sín í sínu eigin heimalandi þegar framtíð þess og barna þess er jafn ótraust og raun ber vitni?

Herra forseti. Ungt fólk á sér fáa málsvara á þessu þingi og er það miður. Við þurfum á unga fólkinu að halda ef Ísland vill viðhalda góðu (Forseti hringir.) samfélagi og sjálfbæru til framtíðar. Lærum af mistökum annarra þjóða sem eru nú að missa stóra hópa ungs fólks frá sér vegna þess að því er ekki boðið upp á mannsæmandi kjör. Gerumst öll málsvarar ungs fólks á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)