149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[15:51]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Breyting á 2. gr. varðandi skráningu trúar- eða lífsskoðunarfélaga á nafni er einmitt breyting sem varð vegna umsagna og ábendinga í meðferð þessa máls á síðasta þingi og er bara til bóta. Ég held að það sé alveg rétt að ef við treystum foreldrum á auðvitað bara að fela þeim fulla ábyrgð á skráningu nafnsins en ekki fela einhverjum milliliðum þá skráningu.

Hvað varðar skylduna til að skrá nafn, þetta er mjög áhugaverður punktur og mætti alveg spyrja sig: Af hverju í ósköpunum ættum við yfir höfuð að vera með einhverja sérstaka löggjöf um það? Þetta gæti orðið áhugavert umræðuefni í nefndinni. Við töldum okkur mjög róttæk og frjálslynd í þeirri breytingu sem hér er lögð fram en ég ætla ekkert að útiloka að það megi ganga lengra. Ég held að það sé bara áhugavert viðfangsefni fyrir nefndina að takast á við.