149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[16:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst svo skrýtið við málflutning hv. þingmanns að hann kemur upp í ræðustól, ég hef heyrt hann gera þetta áður, og segir: Ég er frelsisins maður en núna er undantekningin. Svo eru undantekningarnar frekar stórar og alveg óþægilega algengar. Síðan rökstyður hv. þingmaður þetta einhvern veginn með því að aðrir eigi að vera einhverjir ægilegir hræsnarar gagnvart frelsi. Þegar þeir leiðrétta það og segjast vera frelsisins fólk í öðrum málefnum líka stendur allt í einu einhver sem vill ekki frelsið. Hver? Jú, hv. þm. Brynjar Níelsson sjálfur.

Það að segja að þetta snúist ekkert um frelsi en tala í sömu ræðu um að það megi alveg rýmka þetta — hann notar orðið rýmka — og að þetta þurfi ekki að vera svo fast í forminu er mótsögn. Auðvitað snýst þetta um frelsi. Þegar fólki er beinlínis meinað að gera eitthvað með landslögum er það að sjálfsögðu skerðing á frelsi. Það getur verið lögmæt skerðing á frelsi. Það er t.d. lögmætt að skerða tjáningarfrelsi af ýmsum ástæðum, t.d. til að tryggja sanngjörn réttarhöld eða friðhelgi einkalífs einhvers eða því um líkt. Það er samt skerðing. (Forseti hringir.) Það er innri mótsögn í því sem hv. þingmaður er að segja. Hann getur ekki bæði verið hérna á móti þeim sem vilja frelsi en samt einhvern veginn ekki talið þetta snúast neitt um frelsi.