149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

heræfingar NATO.

[10:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan, gert er ráð fyrir að æfð verði lending landgönguliðs í Sandvík sunnan við Hafnir á Reykjanesskaga. Í land kemur 300–400 manna lið á loftpúðaskipum og prömmum. Samtímis flytja þyrlur um 120 manna lið á öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli.

Ég geri ráð fyrir að þessar upplýsingar hafi verið kynntar í hv. utanríkismálanefnd. Það er nú ekki svo að mál eins og þetta gangi fram án þess að það sé kynnt í ríkisstjórn og að sjálfsögðu fyrir hæstv. forsætisráðherra. Það segir sig sjálft og þarf ekki að taka fram. En úr því að spurt er: Jú, það er ekki svo að utanríkisráðherra sé að leyna ríkisstjórn eða hæstv. forsætisráðherra heræfingu af þessari gerð eða öðru slíku. Mér finnst ég ekki þurfa að taka það fram en úr því að spurt er skal bent á það augljósa. Að sjálfsögðu er það ekki gert.