149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

dómstólar o.fl.

70. mál
[14:04]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að beina einni spurningu í upphafi máls míns til hæstv. ráðherra gagnvart þessu nýja frumvarpi. Eins og við vitum hefur þetta frumvarp verið rætt áður en er nú aftur komið fram í aðeins breyttri mynd. Breytingin snýr einna helst að því að nú stendur til að hafa fimm dómendur í stað fjögurra og að tveir dómendur, sem ekki koma úr röðum dómstólanna sem við höfum á Íslandi, verði settir við endurupptökudómstól.

Veigamestu athugasemdirnar sem sú sem hér stendur hafði, ásamt öðrum umsagnaraðilum, við frumvarpið eins og það var lagt fram síðast voru einmitt að meiri hluti dómenda yrði ávallt dómarar úr dómstólum landsins í stað þess að meiri hluti dómenda yrðu þeir sem væru utanaðkomandi að dómstólum landsins. Mér fannst það ekki endilega vekja traust gagnvart endurupptökudómstólnum vegna þess að þrátt fyrir að hægt sé að segja að hlutleysi dómara sem ekki hafa tekið þátt í einhverju ákveðnu málefni, sé svona nokkurn veginn tryggt styrkir það samt ekki trú borgaranna á þessu úrræði að meiri hluti dómenda sé samt sem áður dómarar sjálfir sem vinni í sömu starfsstétt og hafi að vissu leyti sömu hagsmuna að gæta.

Okkar tillaga á sínum tíma var að í hverju máli væru að minnsta kosti tveir sem kæmu úr röðum þeirra sem ekki sætu í dómstólum landsins.

Nú sé ég að verið er að gera einhverja bragarbót hér á, en eftir sem áður eru ekki skilyrði til þess að meiri hluti dómenda í endurupptökudómstól séu ekki dómarar sjálfir. Ég velti fyrir mér hvort ráðherra sé opin fyrir þeirri hugmynd að þeir séu ávallt í meiri hluta. Að þannig megi styrkja trú borgaranna á því að endurupptökubeiðnir og endurupptaka á málum sé gerð af þeim sem ekki hafa tekið beinan þátt í starfi dómstóla yfir höfuð, (Forseti hringir.) þótt það sé að vissu leyti hagkvæmt að hafa alla vega einn dómara.