149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

um fundarstjórn.

[15:23]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og forseti þekkir þá er samgönguáætlun eitt stærsta plaggið fyrir landsbyggðina fyrir utan fjárlagafrumvarpið; hún er mest rædd á fundum okkar um landið. Samgönguáætlun skiptir mjög miklu máli. Það skiptir máli að við séum öll, þingmenn, á sama stað þegar umræðan fer í fjölmiðla. Auðvitað er ekki hægt að bera það saman þegar hæstv. fyrrverandi ráðherra segir að hann ætli að leggja fram mál um jafnlaunavottun sem allir vita hvað er, eða þegar verið er að tala um samgönguáætlun sem við þekkjum ekki og vitum ekki hvernig á að verja eða ræða um.

Mér heyrist vandamálið vera þetta: Samgönguáætlun lekur út úr einum stjórnarþingflokkanna. Hver eru þá viðbrögðin? Hver eiga þá viðbrögð hæstv. ráðherra að vera eða þingheims almennt? Það er þá umræðu sem við þurfum að taka. (Forseti hringir.) Hvernig tökum við á því þegar upplýsingar leka út úr þingflokkum, sérstaklega um svona stórt mál sem setur allt úr jafnvægi? (Forseti hringir.) Við, þingmenn stjórnarandstöðunnar, stöndum ekki jafnfætis stjórnarþingmönnunum.