149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

um fundarstjórn.

[15:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hlutir gerast sem fólki er ekkert endilega vel við hér í þingstörfum, eins og við þekkjum alveg. Gögn geta lekið, mistök eru gerð. Þá er mjög mikilvægt að fólk sé reiðubúið til þess að bregðast rétt við því þegar það gerist. Það þarf ekki nema einn einstakling í þessum stjórnarflokkum til að leka þessum gögnum til að svo verði þótt það sé í óþökk allra hinna. Þá er mjög mikilvægt að sagt sé hér: Afsakið, hér voru gerð mistök, við skiljum vandann og reynum að bæta upp fyrir hann og gera betur næst. — Eitthvað í líkingu við það.

Það sem gengur ekki er að varðmenn ríkisstjórnarinnar komi hingað og verji þetta og láti eins og þetta sé allt í lagi, þetta sé nú bara samkvæmt þingsköpum og eins og mál eru meðhöndluð hérna á þingi. Sá málflutningur er að mínu mati óvelkominn. Það bara dugar ekki til. Við svona aðstæður á maður að reyna að gera betur, ekki láta eins og allt sé í lagi eða að það sé einhver vitleysa að vera að kvarta undan þessu. Mér finnst mikilvægt að við höfum þann mun algjörlega á hreinu. Ég fagna þeim örfáu orðum sem hér hafa verið sögð um að þetta sé óheppilegt. Það er rétt. (Forseti hringir.) Það er betra að fá afsökunarbeiðni og einhverja skýringu á því hvernig fyrirbyggt verði að þetta gerist í framtíðinni.