149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

almannatryggingar.

54. mál
[17:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Á þessum tíma var hrunið nýskollið á. Ég vil alltaf trúa því góða. Ég vil trúa því að þessi sérstaka uppbót sem var sett þarna hafi verið sett inn af góðum ásetningi. Hún átti að hjálpa þeim sem höfðu minnst og höfðu minnsta möguleika til að framfleyta sér. Í þessu tilfelli voru það þeir sem voru verst settir sem fengu þetta og fá mest af þessu.

En það sem gerði það að þessi króna á móti krónu skerðing eða sérstaka uppbótin varð að þessu rosalega skrímsli var að þeir setja inn allt, liggur við, milli himins og jarðar, sem skerðir þetta. Það eru engar undantekningar. Allar tekjur og eignir. Það segir sig sjálft að það hlýtur að vera stærðfræðilega á allan hátt rangt að setja allar eignir og allt undir í svona tilfelli.

Og við megum ekki heldur gleyma því að á þessum tíma, stuttu seinna, voru öryrkjar skertir. Öryrkjar og eldri borgarar urðu fyrir stórfelldum skerðingum eftir hrunið. Varðandi rökin sem fylgdu þeim skerðingum þá tóku þeir fram á sínum tíma að þeim þætti þetta mjög leitt og það fylgdi loforð um að um leið og áraði betur yrði fyrsta mál þeirrar ríkisstjórnar sem þá var við völd að leiðrétta kjör eldri borgara og öryrkja. En þeir stóðu ekki við neitt af því. Þeir leiðréttu eigin laun og skildu eldri borgara og öryrkja eftir. Og þetta er leiðrétting sem á eftir að gera og er krafa um að verði gerð.