149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda.

19. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hélt að hv. þingmaður hefði setið og hlustað á ræðu mína þar sem ég svaraði öllum þeim spurningum sem komu fram í máli hv. þingmanns hér áðan. Ég sagði að mögulega gæti þetta einfaldlega verið útibú frá Fjölmenningarsetri. Ég sagði að þar væri unnið þarft og gott starf. Ég teldi hins vegar að það þyrfti að fara í enn víðtækara samstarf um rekstur þess málaflokks en kveðið er á um í lögum um Fjölmenningarsetur. Það er sérstaklega tiltekið í greinargerð með málinu hver verkefni Fjölmenningarseturs eru samkvæmt lögum.

Ég held að ég hafi enga stofnun nefnt jafn oft í máli mínu hér rétt áðan og einmitt Fjölmenningarsetur, ef kannski er undanskilin ráðgjafarstofa innflytjenda sem tillagan gengur út á.

Virðulegur forseti. Ég hef skynjað ákveðna varúð og það á sérstaklega við um þingmenn Norðvesturkjördæmis og í síðustu viku var hér hv. þingmaður Samfylkingarinnar sem hvatti beinlínis til þess að þessi tillaga yrði dregin til baka. Ég skynja sérstaka varúð hjá þingmönnum hv. Norðvesturkjördæmis. Ég skil hana vel. Ég skil vel að þeir vilji standa vörð um það góða starf sem unnið er hjá Fjölmenningarsetri.

Einmitt þess vegna hafði ég samband við Fjölmenningarsetur áður en ég lagði þessa þingsályktunartillögu fram og fékk mjög jákvæð viðbrögð. Þar á bæ voru menn mjög spenntir yfir henni þannig að ég taldi ekkert að vanbúnaði með það að leggja tillöguna fram og ítreka það í greinargerð og svo í máli mínu hér aftur og aftur að samstarfið verður að vera gott.

Virðulegi forseti. Ég ítreka og endurtek að ég ætla hv. velferðarnefnd að vinna áfram með það hvernig (Forseti hringir.) skipulagið á þessu verður nákvæmlega. Hér er hins vegar um töluvert útvíkkaða starfsemi að ræða miðað við þá sem kveðið er á um hjá Fjölmenningarsetri í lögum.