149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins með sérstöku tilliti til bújarða.

20. mál
[18:38]
Horfa

Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um mótun eigendastefnu ríkisins með sérstöku tilliti til bújarða. Þetta er í raun fjórða skiptið sem ég mæli fyrir þessari tillögu en hún er hér sett fram í örlítið breyttri mynd. Hún hljóðar svo í þetta sinn:

„Alþingi ályktar að við mótun almennrar stefnu um eignir og réttindi í eigu ríkisins verði sérstaklega fjallað um bújarðir þar sem litið verði til ábúðar, náttúruverndar, ferðaþjónustu og möguleika fólks til að hefja búskap.

Ráðherra kynni eigendastefnu ríkisins fyrir þinginu eigi síðar en 1. janúar 2019.“

Við fyrri framlagningu bárust umsagnir frá Bændasamtökum Íslands, bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs, Ísafjarðarbæ, Landgræðslu ríkisins, Seyðisfjarðarkaupstað og Umhverfisstofnun. Tóku umsagnaraðilar ýmist undir markmið þingsályktunartillögunnar og mæltu með framgangi hennar eða gerðu ekki athugasemdir við efni hennar.

Með tillögu þessari er fjármála- og efnahagsráðherra falið að fjalla sérstaklega um bújarðir í almennri stefnu um eignir og réttindi í eigu ríkisins sem honum ber að setja samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál. Þar verði litið til ábúðar, náttúruverndar, ferðaþjónustu og möguleika fólks til að hefja búskap. Þróun síðustu ár hefur verið sú að sífellt fleiri jarðir fara úr ábúð og það hefur veikt mjög hinar dreifðu byggðir landsins sem eru mikilvægar út frá byggðasjónarmiðum og til að tryggja matvælaframleiðslu og jafnrétti til búsetu. Síðasta áratug hafa orðið miklar breytingar á landnotkun í dreifbýli en sú breyting sem hefur hvað víðtækust áhrif er mannfjöldi sem ræðst að verulegu leyti af atvinnumöguleikum fólks.

Markmið tillögu þessarar er einkum það að málefni bújarða séu höfð að leiðarljósi við mótun almennrar eigendastefnu ríkisins og stefnan tryggi möguleika fólks til að hefja búskap. Einnig þarf að horfa til náttúruverndar og uppbyggingar ferðamannasvæða. Sömuleiðis þarf að skilgreina hvers konar landsvæði skuli vera í eigu ríkisins og þar með hvaða landsvæði sé heppilegra að sé í eigu einkaaðila.

Árið 2013 skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra starfshóp um landnotkun í dreifbýli og sjálfbæra landnýtingu. Í lokaskýrslu starfshópsins frá ágúst 2015 kemur fram að mikilvægt sé að móta eigendastefnu fyrir landareignir í eigu ríkisins, hvernig beri að nýta og ráðstafa þeim, þar með talið hvort og hvaða jarðir skuli vegna sérstöðu sinnar vera í eigu ríkisins, hverjar megi selja og hverjar leigja, og þá eftir atvikum, með hvaða kvöðum.

Margar jarðir í eigu ríkisins hafa mikla sérstöðu með tilliti til náttúru, sögu og menningar, en flestar bújarðir og jarðahlutar eru í umsjón stofnana ríkisins eða ábúenda sem hafa þær til afnota gegn leigugjaldi. Samkvæmt jarðalögum, nr. 81/2004, fer fjármála- og efnahagsráðuneytið með forræði ríkisjarða og kveða lögin á um kaup, sölu og aðra ráðstöfun ríkisjarða. Lögin kveða ekki á um að ríkið setji sérstaka stefnu fyrir sínar jarðir. Í lögum nr. 123/2015, um opinber fjármál, er hins vegar mælt fyrir um skyldu ráðherra til að móta almenna stefnu um eignir og réttindi í eigu ríkisins. Slík stefna skal fjalla um markmið og áherslur ríkisins um meðferð og nýtingu eigna og réttindi eftir eignaflokkum samkvæmt 1. mgr. 43. gr., samanber 2. mgr. 43. gr. laganna. Drög að meginþáttum slíkrar stefnu voru lögð fram til umsagnar á vef Stjórnarráðsins 5. október 2017. Sú stefna hefur ekki verið samþykkt.

Líkt og kom fram í sérstakri umræðu á síðasta þingi, sem sú sem hér stendur var málshefjandi að, þá stendur til að yfirfara þær athugasemdir sem bárust og betrumbæta þau drög sem þar voru birt. Það kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra. Þar kom líka fram vilji ráðherra til að koma á ráðgjafarhópi í fjármálaráðuneytinu sem mun koma til ráðgjafar um endanlegar tillögur. Ég bind vonir við að þetta sé allt að koma fram en í ljósi þess að lítið virðist hafa verið gert þá leggjum við þetta mál fram hér í fjórða skiptið líkt og ég kom að áðan.

Þetta er risastórt mál. Í greinargerð með tillögunni er einnig fjallað um jarðakaup útlendinga sem hafa verið mikið í umræðunni undanfarin misseri og eru farin að kalla á aðgerðir um stefnu í öllum þessum málum.

Umræða um jarðakaup útlendinga er ekki ný af nálinni. Hinn 17. apríl 2013 setti þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, nýja reglugerð um kaup útlendinga með lögheimili á Evrópska efnahagssvæðinu á fasteignum hér á landi. Samkvæmt henni máttu EES-borgarar ekki kaupa land á Íslandi nema þeir hefðu lögmæta dvöl eða starfsemi hérlendis. Reglugerðin var numin úr gildi nokkrum mánuðum síðar af þáverandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem taldi reglugerðina ekki samræmast skuldbindingum landsins vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Í janúar 2017 skipaði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp með það að markmiði að endurskoða lög og reglur um kaup erlendra aðila á bújörðum á Íslandi. Starfshópnum er ætlað að leggja mat á það hvaða takmarkanir komi helst til greina til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Í því sambandi má nefna að eignarhald á landbúnaðarlandi er takmarkað í dönskum jarðalögum og skilyrði sett fyrir kaupum erlendra ríkisborgara.

Þetta er orðið aðkallandi líkt og ég kom að áðan og mikilvægt að við förum að marka stefnu í þessum málum, en í þessari tillögu erum við eingöngu að tala um bújarðir sem eru í eigu ríkisins. Það er afmarkað mál. En í skriflegu svari frá þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra sem fékkst hér á 145. löggjafarþingi, kom fram að ríkissjóður ætti 450 jarðir og að stór hluti þeirra væri nýttur til landbúnaðar. Ríkiseignir annast daglega umsýslu stærsta hluta jarðeigna ríkisins eða um 315 jarða. Þá eru í gildi 122 ábúðarsamningar hjá Ríkiseignum vegna bújarða. Samkvæmt 12. gr. ábúðarlaga, nr. 80/2004, ber ábúanda að hafa fasta búsetu á ábúðarjörð og stunda þar landbúnað nema annað hafi verið samþykkt. Fjölmargir leigusamningar hafa verið gerðir um ríkisjarðir þar sem leigutaki býr á jörðinni. Einnig er algengt að jarðir séu leigðar til slægna og beitar til aðila sem búa á aðliggjandi jörðum. Húsakostur er forsenda þess að geta hafið ábúð á jörð og því henta eyðijarðir almennt ekki til ábúðar.

Kveikjan að því að þetta mál var flutt hér í upphafi var sú að lítið virtist vera að gerast í því að verða við óskum fólks um að búa áfram á jörðum eða taka við jörðum. Það gekk hægt. Þó ber að taka fram að einhver hreyfing hefur verið á því og menn hafa sýnt viðleitni til að ýta þeim málum áfram. Engu að síður hefur það ekki gengið nógu hratt fyrir sig að mati margra og meðal annarra þeirrar sem hér stendur því að ástandið í sveitum landsins er víða ekki nógu gott. Ríkið getur tekið þarna afstöðu til ákveðinna hluta; hvernig við ætlum að nytja jarðirnar, hvaða kosti jarðanna við ætlum að nýta, til hvers á að nota jarðirnar og í hvaða tilgangi. En í grunninn held ég að við þurfum að vera meðvituð um spurninguna um það hvort við ætlum að framleiða matvæli hér á landi eða ekki. Ég held að við eigum klárlega að gera það. Við eigum að tala um matvælalandið Ísland. Hér erum við í öllum færum til þess að framleiða áfram vandaðar, góðar, hreinar afurðir sem við getum verið stolt af.

Ég vil nefna, í ljósi atburða sem gerðust bara á þessu ári, að það þarf ekki að fara langt til að sjá dæmi um að bændur lendi í vandræðum. Það er ekkert öryggi í matvælaframleiðslunni. Við þurfum að tryggja áframhaldandi matvælaframleiðslu hér á landi. Að þessum hluta getur ríkið komið inn í og hjálpa til við að nytja jarðir. Við gerum okkur líka alveg grein fyrir því og þurfum að gera það að hér verður ekki einungis stundaður svokallaður hefðbundinn búskapur á öllum jörðum. Það eru miklar breytingar að eiga sér stað og hafa átt sér stað. Menn eru að nytja fleiri en eina jörð og þurfa þess því að margar jarðir eru ekki stórar. En við þurfum að marka skýra stefnu í þessum málum eins og svo mörgum öðrum til að halda vel utan um þau og ef við ætlum áfram að styrkja áfram og það er það sem við viljum, landbúnað á Íslandi, þá þurfum við að stíga þessi skref og halda utan um efnið.

Við eigum fullt af vinnugögnum. Það er búið að vinna alls kyns efni sem er verið að skrá í ljósi þess að hér er komin landsskipulagsstefna og það er verið að vinna hana. Hvernig ætlum við að vernda ræktanlegt land, í hvað ætlum við að nota það? Ætlum við að taka allt undir skóga? Svo er annað mál sem ég vildi gjarnan að við gætum rætt hér, varðandi það hvernig við getum komið inn í það, ríkið gæti stigið inn í það, en það er að um landið allt eru tún að fara í órækt. Það er ekki gott. Við erum að glata verðmætum ef við látum það halda áfram. Getum við nýtt túnin til uppgræðslu líkt og bændur hafa verið að gera um langan tíma? Alls staðar um allt land hafa menn verið að nýta hey af túnum til landgræðslu og það er mjög áhrifaríkt og hefur nýst vel, þá sláum við nokkrar flugur í sama högginu, viðhöldum verðmætum, græðum upp landið, sköpum atvinnu o.s.frv. Er þetta eitthvað sem við getum skoðað á þessum jörðum? Það eru margir möguleikar í stöðunni.

Engu að síður held ég að þetta sé mjög aðkallandi verkefni, að við förum að marka þessa stefnu og fylgjum þessu eftir. Ég vonast til þess að þetta mál fái hér framgang í þinginu.

En ég er ekki hætt. Ég kem þá bara í eitt skiptið enn með þetta mál, ef þess þarf þá gerum við það. Framsóknarflokkurinn stendur að því.

En auk þeirrar sem hér stendur eru flutningsmenn Líneik Anna Sævarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Willum Þór Þórsson.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar.