149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

13. mál
[15:55]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í þessari tillögu þar sem fjallað er um marga hluti er reynt að draga saman það sem þarf að gera til þess að bæta stöðu barna hér á landi. Það er auðvitað hægt að taka hér út einstök mál. Það eru fleiri liðir þarna inni sem eru annaðhvort þingmál eða ég veit að þingmál eru á leiðinni og það er allt í fína lagi. Þarna er bara gerð tilraun til þess að bregðast við athugasemdum bæði alþjóðaskýrslna og nefnda og áhyggjuefni umboðsmanns barna, og það tekið saman í eina heild.

Auðvitað eru þingmenn að vinna með einstaka þætti, en framkvæmdarvaldið er líka að gera það. Það er gott og vel. En það er afar mikilvægt að þingheimur bregðist við, ekki síst núna þegar við vitum að í góðærinu býr allt of stór hluti barna við hreina vanrækslu og fátækt. Það eru biðlistar í geðheilbrigðisþjónustu svo dæmi sé tekið. Við eigum auðvitað að taka utan um þetta og bregðast við. Við eigum að sjá um stefnumótunina og færa framkvæmdarvaldinu niðurstöðuna.

Varðandi afgreiðslu í nefndum þá þekkjum við það auðvitað að það eru of mörg mál sem eru bara sett ofan í skúffu og þingmenn draga þau fram aftur og aftur til þess að reyna að vekja athygli á þeim og þau komast ekki áfram og inn í þingið. Ég hef skilning á því að nefndir hafi ekki tíma til þess að vinna öll mál, það er þannig, en það kemur of oft fyrir að í þingnefndum sé fundafall af því að það er ekkert stjórnarmál til þess að vinna með. Þá á auðvitað að nýta tímann til þess að fara í málin sem bíða. Ég vona að það verði breyting á slíku vinnulagi frá og með þessu þingi.