149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

13. mál
[16:21]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. flutningsmanni fyrir ágæta ræðu áðan og að mér sýnist öllum þingflokki Samfylkingarinnar fyrir að leggja fram þetta mál. Ég held að þarna sé verið að snerta á ákaflega mikilvægum þáttum. Í rauninni er verið að taka saman í eina tillögu marga afar mikilvæga þætti sem geta verið leiðarljós fyrir stjórnvöld í sambandi við það hvernig við eigum að koma heildrænt að málefnum barna. Það held ég að sé afar mikilvægt.

Flutningsmenn vita náttúrlega eins og sá sem hér stendur að sum þessara mála eru í vinnslu hjá stjórnvöldum um þessar mundir og um sum málanna hafa verið teknar ákvarðanir. En mér finnst andinn í tillögunni vera svolítið að heildarsýn vanti. Það kann vel að vera að sú hugsun sem kemur fram í nýjum titli hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra eigi að einhverju leyti að fanga þá sýn sem það ráðuneyti á að fara að sýna, það er vel ef svo er. En hér má segja að klukkaðir séu nánast allir þeir þættir, ef svo má að orði komast, sem þarna þurfa að vera undir. Ég held að það sé mjög gott.

Það eru nokkur atriði sem ég velti fyrir mér. Það er til að mynda liður 7 í kafla II um barnahúsið. Ég velti fyrir mér hvort slíkt hús eða starfsemi gæti verið í samstarfi við það barnahús sem þegar er til eða hvort það þyrfti að vera algjörlega aðskilið. Það er ein vangavelta.

Ég velti líka fyrir mér með þá liði sem snúa að geðrænum vanda barna og ungmenna, sérstaklega lið 3 og 4 sem snúa beint að Landspítala – háskólasjúkrahúsi, hvort félagsmálaráðherra sé endilega aðilinn sem eigi að halda utan um það. Kannski ættum við að fá umboðsmanni barna alla þá þræði að halda í og til að vera hinn stóri samhæfingaraðili. Ef svo ætti að vera þyrfti náttúrlega að efla það embætti umtalsvert.

Ég hef fylgst ágætlega með umræðunni og til að mynda hafa sumir þingmenn komið inn á að allt muni þetta kosta peninga og svoleiðis. Auðvitað er það rétt, en samfélagið ver þegar töluvert miklum fjármunum til stuðnings börnum og barnafjölskyldum og þá kannski meira hitt stjórnsýslustigið, þ.e. sveitarfélögin, þar sem í mjög mörgum sveitarfélögum fara alveg upp undir 3/4 af öllum fjármunum sveitarfélaganna í rekstur leikskóla og grunnskóla. Féð er því notað á skynsamlegan hátt, en hins vegar vantar, eins og ég skil anda tillögunnar, samhæfinguna og yfirsýnina.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna neitt rosalega mikið. Ég hlakka til að taka á málinu í hv. velferðarnefnd og eins og formaður nefndarinnar, hv. þm. Halldóra Mogensen, sagði áðan munum við fjalla vel og vandlega um það og reyna að klára það og koma því í gegnum nefndina. Þetta er ljómandi gott mál og þarft og mikilvægt og þarft að þingið sýni vilja sinn í því að taka á málefnum barna af myndugleik.