149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

uppsögn tollasamnings um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið.

22. mál
[17:18]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um uppsögn tollasamnings um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið. Meðflutningsmenn eru hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson. Það eru því þingmenn Miðflokksins sem mæla fyrir þessari tillögu.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að segja upp tollasamningi við Evrópusambandið um landbúnaðarafurðir frá 2015 vegna brostinna forsendna og skorts á úttekt á áhrifum samningsins á innlenda búvöruframleiðslu. Uppsögnin taki gildi eigi síðar en sex mánuðum eftir samþykkt ályktunar þessarar.“

Þessi tillaga var áður lögð fram á 148. löggjafarþingi en fékk ekki afgreiðslu. Hún er nú endurflutt að mestu óbreytt.

Herra forseti. Íslensk stjórnvöld undirrituðu tollasamning við Evrópusambandið (ESB) um landbúnaðarafurðir haustið 2015. Samningurinn tók gildi 1. maí sl., og tók við af tollasamningi sem gerður var við Evrópusambandið árið 2007. Þessi samningur er óhagstæður Íslandi. Hann á að færa íslenskum bændum sömu möguleika í Evrópu og Evrópusambandið fær hér á landi. Það gerir samningurinn því miður ekki.

Ég mun tiltaka nokkur atriði sem ég tel að sýni glögglega að ekki var nægilega vel staðið að samningsgerðinni fyrir Íslands hönd og hversu óhagstæður samningurinn er Íslandi. Í fyrsta lagi endurspeglar samningurinn ekki stærðarmun markaðanna. Í ríkjum Evrópusambandsins telur markaðssvæðið um 500 milljónir manna en markaðurinn á Íslandi er einungis um 350 þúsund manns. Í samningnum var ekki tekið tillit til þessa mikla stærðarmunar eins og eðlilegt hefði verið að gera og samræmist góðri samningagerð. Öll almenn sanngirnissjónarmið mæla með því að í samningum sem þessum sé tekið tillit til stærðarmunar markaða. Það var t.d. gert í samningum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um landbúnaðarvörur frá 1995. Það er grundvallaratriði í samningsgerð að báðir aðilar megi vel við una. Því er ekki fyrir að fara í þessum samningi.

Tökum innflutning á ostum sem dæmi. Verulega hallar á Ísland í viðskiptum með ost en Evrópusambandið fær að flytja til Íslands tollfrjálst 610 tonn af osti en Ísland til Evrópusambandsins aðeins um 50 tonn. ESB fær að flytja til Íslands 230 tonn af sérostum. Þetta magn verður komið að fullu inn á íslenskan markað eftir tvö ár en sérostamarkaðurinn á Íslandi er um 240 tonn. Þessi 240 tonn eru framleidd í Búðardal og þar starfa 25 manns við þessa sérostagerð.

Það sjá allir að það er ekki pláss fyrir innflutning á 230 tonnum aukalega frá Evrópusambandinu inn á okkar litla markað. Með þessum samningi er því verið að setja íslenska sérostaframleiðslu í mjög þrönga stöðu.

Í samningnum er engin heimild um útflutning á íslenskum sérostum inn á Evrópumarkað. Ostainnflutningur Evrópusambandsins til Íslands í þessum samningi nemur um 12–15% af markaðnum á Íslandi. Þá er átt við almenna osta og sérosta. Útflutningur okkar til Evrópusambandsins er brotabrot af markaðnum þar. Það sjá allir að þetta er hróplegt ójafnvægi. Undir þetta skrifaði samninganefnd Íslands og þetta hefur hæstv. landbúnaðarráðherra kallað tækifæri fyrir íslenskan landbúnað.

Herra forseti. Ég kalla þetta að semja af sér.

Í öðru lagi vil ég nefna sérstaklega að engin úttekt fór fram á áhrifum samningsins á innlenda búvöruframleiðslu. Það er mikill annmarki á þessum samningi og sætir í raun furðu að þetta skuli ekki hafa verið gert. Í alþjóðlegri samningatækni er það grundvallarregla að hafa víðtækt og gott samráð við hagsmunaaðila. Evrópusambandið hafði til að mynda reglulegt samráð við sína hagsmunaaðila í þessari samningsgerð. Fyrir því hef ég öruggar heimildir. Íslenska samninganefndin vissi ekki hvaða áhrif samningurinn myndi hafa á íslenska búvöruframleiðslu þegar hún skrifaði undir. Auk þess var samráð við hagsmunasamtök bænda á Íslandi í samningsgerðinni lítið sem ekkert. Þetta er verulega ámælisvert.

Í þriðja lagi hefur sú breyting átt sér stað eftir að samningurinn var undirritaður að okkar stærsta og besta markaðssvæði, Bretland, er að ganga úr Evrópusambandinu eins og kunnugt er og þar með úr þessum tollasamningi. Það mun verða um mitt næsta ár. Bretlandsmarkaður er annar stærsti markaður Evrópusambandsins með 66 milljónir íbúa. Fullkomin óvissa er um hvaða áhrif þetta kemur til með að hafa fyrir okkur.

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerði þetta sérstaklega að umtalsefni sínu í þessari viku þegar nefndin heimsótti Ísland. Hún lagði áherslu á að útganga Bretlands ógnaði einum mikilvægasta útflutningsmarkaði Íslands. Þetta eru stór orð sem við verðum að taka alvarlega og það á svo sannarlega við í þessum samningi. Gleymum því ekki að skyrkvótinn okkar í tollasamningnum, sem er reyndar ágætur og það er kannski það skásta við þennan samning, er rúmlega 3.600 tonn. Hann var hugsaður á Bretlandsmarkað. Við vitum ekkert hvað verður um hann. Ef Bretland verður farið úr Evrópusambandinu um mitt næsta ár er alveg ljóst að við flytjum ekki út skyr eða aðrar landbúnaðarvörur þangað á grundvelli þessa samnings. Þá þarf væntanlega að semja við Bretland sérstaklega og það gæti tekið einhver ár. Samhliða þessu hefur sterlingspundið fallið um 30–35% frá því að samningurinn var gerður.

Þessir þættir hafa afgerandi áhrif á forsendur Íslands til útflutnings á skyri til Bretlands og má segja afdráttarlaust að um forsendubrest sé að ræða. Þetta verða stjórnvöld að viðurkenna og bregðast við með viðeigandi hætti. Það er fullkomlega eðlilegt að segja samningi upp og semja upp á nýtt þegar svo ríkar forsendur sem þessar verða ekki lengur til staðar.

Herra forseti. Tollasamningurinn við Evrópusambandið setur innlenda búvöruframleiðslu í mjög erfiða stöðu. Þá er eðlilegt að menn spyrji til hvaða mótvægisaðgerða stjórnvöld muni grípa á meðan samningurinn er í gildi.

Í sérstakri umræðu um tollasamninginn sem Miðflokkurinn stóð fyrir hér á síðasta þingi spurði ég hæstv. landbúnaðarráðherra um áhrif tollasamningsins á íslenska búvöruframleiðslu. Ráðherra gat þess í umræðunni að hann væri að vinna að mótvægisaðgerðum. Hann gat hins vegar ekki svarað því í hverju þær aðgerðir fælust. Í umræðum í þinginu fyrir skömmu um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2019 spurði ég hæstv. landbúnaðarráðherra hvaða fjármunum yrði varið í mótvægisaðgerðir vegna tollasamningsins. Svarið var stutt: Ekkert fjármagn er eyrnamerkt mótvægisaðgerðum. Það er þrátt fyrir að starfshópur á vegum landbúnaðarráðherra hafi mælt með því.

Það er því ljóst að orð ráðherra um aðstoð til handa bændum vegna neikvæðra áhrifa tollasamningsins á innlenda búvöruframleiðslu voru því miður innantóm.

Búnaðarþing hefur ályktað þess efnis að segja beri samningnum upp. Bændur eru mjög óánægðir með samninginn og hafa miklar áhyggjur af honum enda hefur hann mikil áhrif á íslenskan landbúnað. Áhrif sem skipta milljörðum og geta varðað mörg störf í landbúnaði.

Herra forseti. Ég sé engin rök mæla gegn því að segja þessum samningi upp og í framhaldi verði óskað eftir því við Evrópusambandið að gerður verði nýr tollasamningur vegna breyttra forsendna. Ég er sannfærður um að Evrópusambandið mun sýna þessu skilning. Málið er einfaldlega þannig vaxið, sérstaklega í ljósi Brexit.

Að þessu sögðu vísa ég málinu til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.