149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

uppsögn tollasamnings um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið.

22. mál
[18:06]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda á þessa sex mánuði því að af orðum mínum mátti skilja að ég héldi að þetta myndi bara gerast á morgun og þar hef ég aðeins farið fram úr sjálfum mér. Það sem ég á við er að sex mánuðir á tíma alþjóðlegra samninga eru ansi knappur tími, sex mánuðir til að setjast yfir og gera nýja samninga. Ég held að hv. þingmaður geri sér fullkomlega grein fyrir því á sama hátt og ég að það er ekki í boði. Þó að við séum duglegir menn og getum sest niður og samið slíkt á sex mánuðum er það ekki alveg svona einfalt.

Nei, það eru ekki pólitískar keilur að bregðast við forsendubresti. En að bregðast við á þennan hátt finnst mér bera keim af því að vera pólitískar keilur. Já, samningurinn hefur komið illa við marga. Yfir það þarf að setjast, hvort hægt sé að koma til móts við þá.

Getur hv. þingmaður fullyrt að engar fjölskyldur í landinu njóti góðs af samningnum? Hvað með þær 10 milljónir lítra af mysu sem ég minntist á? Hvað ætlar hv. þingmaður að segja við framleiðendur þeirrar afurðar sem missa markaðinn fyrir hana? Hefur hv. þingmaður sest yfir afleiðingar tillögu sinnar og getur hann fullyrt að hún muni koma öllum fjölskyldum í öllum kjördæmum til góða? Ég er ekki viss um að hann geti það.

Að sjálfsögðu eigum við að bregðast við þegar fólk bendir okkur á að fyrri ákvarðanir Alþingis séu ekki nógu góðar og að jafnvel þurfi að endurskoða þær. En við eigum að gera það á yfirvegaðan og faglegan máta, með því að setjast yfir hlutina og vega og meta hvernig best sé gert. Hvað ætlar hv. þingmaður að gera ef það verður ný kosning í Bretlandi og Bretar ganga ekki úr Evrópusambandinu, eins og einn af stærstu flokkum Englands leggur til að verði gert?