149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

verksvið forstjóra Barnaverndarstofu.

[10:48]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Það er í fyrsta lagi afleitt að ekki hafi komið nein tilkynning frá ráðuneytinu áður en þetta kom í fréttum RÚV í gærkvöldi.

Ráðherra barnaverndarmála leyndi velferðarnefnd grundvallarupplýsingum þegar hann var spurður út í þessi mál á sínum tíma. Velferðarráðuneytið klúðraði einföldustu stjórnsýsluatriðum í athugun sinni á þessum alvarlegu árekstrum innan stjórnkerfisins í einum viðkvæmasta málaflokki sem til er.

Við þetta bætist að hæstv. forsætisráðherra notaði villandi málflutning þegar hún kynnti fyrirætlun sína um að óháð nefnd myndi fara yfir þessi mál öll á breiðum grunni á sínum tíma. Í ljós kom að velferðarráðuneytið fékk að hafa puttana í rannsókninni og leggja hópnum línurnar um hvað skyldi skoðað. Ekki sérlega óháð, er það?

Ég vona að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefji athugun sína á framkomu ráðherranna gagnvart þinginu í þessu máli sem allra fyrst. Fyrr er ekki hægt að treysta ráðherra, eða ríkisstjórninni yfir höfuð, fyrir heildarendurskoðun þessa málaflokks.