149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

[10:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég skil vel þessi sjónarmið hv. þingmanns og hérna koma þá til skoðunar sömuleiðis greiðsluþátttökureglur. Eins og hér kemur fram erum við með reglur í greiðsluþátttökukerfinu hjá okkur sem gera ráð fyrir því að sjúklingar taki þátt í kostnaðinum upp að vissu marki. Það eru ýmis þök, hérna var minnst á heyrnartæki og svo fram eftir götunum.

Það sem ég átti við í fyrri ræðu minni er að það mun reyna á það þegar við ræðum um málið þegar að því kemur hvort rétta leiðin til að takast á við þetta sé að hækka greiðslurnar í greiðsluþátttökukerfinu eða að veita skattleysi við uppbót á lífeyrisgreiðslur vegna þess að greiðsluþátttökukerfið sér ekki um það. Það er þetta samspil kerfanna sem ég var einfaldlega að vísa til, en mér finnst markmiðið með málinu mjög göfugt og gott.