149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

húsnæðismál.

[11:24]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Hér er stórmál til umfjöllunar og ber að þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir að efna til þessarar umræðu. Þak yfir höfuðið er ein af grunnþörfum okkar allra. Líf án aðgangs að húsnæði er engum boðlegt. Sem betur fer búa flestir við slíkt öryggi en langt í frá allir. Okkur hefur ekki tekist sem skyldi að búa þannig um hnúta að þokkalegt jafnvægi sé á húsnæðismarkaði þar sem framboð og eftirspurn haldast betur í hendur. Markaðurinn hefur ekki ráðið við þetta verkefni með fullnægjandi hætti né hið opinbera. Þrátt fyrir að fullkomnu jafnvægi verði trúlega aldrei náð má gera miklu betur í þeim efnum. Slíkt jafnvægi er forsenda þess að þeir sem geta og vilja geti eignast eigið húsnæði.

Samt er það ekki nóg. Fasteignaverð, aðgangur að fjármagni og ekki síst vaxtakjör skipta hér höfuðmáli. Fyrirsjáanleiki er lítill fyrir þann sem skuldsetur sig um hver greiðslubyrði hans verður til framtíðar. Oft er íbúðakaupum líkt við fjárhættuspil þar sem allt er lagt undir. Það sem er yfirstíganlegt í dag verður það ekki að ári. Við þetta verður ekki búið. Sveiflur í þjóðarbúskapnum og kostnaðurinn við krónuna birtast hér af fullum þunga. Viðreisn telur að þessi vandi muni ávallt setja strik í reikning landsmanna þar til við leysum þann vanda sem fylgir krónunni og til þess er ein leið best, sem er að skipta um mynt. Það verður vissulega ekki gert á morgun en af því verður aldrei ef aldrei er lagt af stað í þá vegferð.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða hugmyndir hefur ráðherrann um að losa fasteignakaupendur undan þessu fjárhættuspili?