149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

húsnæðismál.

[11:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu, eins og svo margir aðrir. Hún varpar dálítið góðu ljósi á það að okkur vantar heildarstefnu í húsnæðismálum. Ég þykist vita að ráðherra sé með slíka stefnu í vinnslu í samræmi við lagabreytingu sem við gerðum hér í vor og ég heyri líka á ráðherra að þar ætli hann að taka dálítið á stofnframlagakerfinu, almennu íbúðunum, sem er gríðarlega mikilvægt skref sem var stigið fyrir eigna- og tekjulága einstaklinga. En það þarf að laga þetta kerfi aðeins þannig að það nái að uppfylla þær væntingar sem við berum til þess.

Hér talaði upphafsmaður umræðunnar um þá tilfinningu að eiga varanlegt heimili, húsnæðisöryggi. Ég held að það sé eitthvað sem við ættum að staldra dálítið við. Við sjáum í könnunum að það er himinn og haf á milli þess hvernig fólk upplifir húsnæðisöryggi sitt eftir því hvernig það býr. Fólk sem býr í eigin húsnæði upplifir sig 94% öruggt. Fólk sem býr í leiguhúsnæði rúmlega 50%. Þetta er að sjálfsögðu óásættanlegt. Við þurfum og við verðum að koma upp öflugum leigumarkaði sem er ekki hagnaðardrifinn til þess að leigumarkaður sé ekki bara félagslegt úrræði. Þó að það skipti mjög miklu máli að við náum utan um tekju- og eignalágu hópana og komum þeim inn í öruggt og varanlegt leiguhúsnæði skiptir líka svo miklu máli að við náum fólkinu í lægri millitekjuhópum og þaðan af hærri, veitum því fólki þann valkost að skuldsetja sig ekki upp í rjáfur í fjötrum séreignarstefnunnar.

Ég má til með, forseti, af því að hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson var dálítið blúsaður í ræðustól áðan og ég myndi kannski ekki kveða jafn fast að orði og hann og tala um lóðasveltistefnu eða ófremdarástand, (Forseti hringir.) en hann getur huggað sig við það (Gripið fram í.) að þéttingarstefna Reykjavíkurborgar og höfuðborgarsvæðisins alls (Forseti hringir.) þjónar þeim tilgangi að hér verði lífvænlegt samfélag til framtíðar. (Gripið fram í.) Hér á besta stað í borginni eigum við yfirdrifið nóg af byggingarlandi (Forseti hringir.) sem nú um stundarsakir er lagt undir flugvöll, en hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson má vita að það stendur til bóta.