149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

húsnæðismál.

[11:44]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Forseti. Það er rétt að rifja upp að undir forystu Viðreisnar á sínum tíma í ríkisstjórn tóku fjögur ráðuneyti og öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu höndum saman um aðgerðir til að reyna að leysa húsnæðisvandann með auknu lóðaframboði, lækkun byggingarkostnaðar og samræmingu á húsnæðisáætlunum sveitarfélaga að leiðarljósi.

Í þeirri ríkisstjórn var lögð fram 14 skrefa áætlun og því er rétt að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé örugglega verið að vinna að mestu leyti eftir þessari áætlun enn þá því að það er óþarfi að finna upp hjólið í hvert skipti sem nýr ráðherra sest í ráðuneytið. Í þeirri áætlun voru ýmsar punktar sem ég vona að ráðherra geti fullvissað þingheim um að enn sé verið að vinna eftir. Er verið að vinna húsnæðisstefnu stjórnvalda eins og fyrri ríkisstjórn stefndi að? Hún átti að byggja á því að húsnæðisáætlanir væru samræmdar á höfuðborgarsvæðinu og tækju mið af fólksfjölgun. Þar var jafnframt lögð til einföldun á regluverki í byggingarmálum þar sem gerðar væru breytingar á lögum mannvirkja og byggingarreglugerð sem miði að lækkun byggingarkostnaðar sem ætti að skila sér í lægra húsnæðisverði. Hvar eru þessar tillögur?

Mig langar að vitna í fyrrverandi hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra, Þorstein Víglundsson, sem sagði m.a. um þetta verkefni:

„Markmiðið með verkefninu er að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur og að flýta þeim tímapunkti að við náum jafnvægi á húsnæðismarkaðinn á nýjan leik. Við ætlum að með þessum aðgerðum getum við hraðað því að jafnvægi náist aftur á fasteignamarkaði þannig að við metum þetta svo að með þessum aðgerðum myndi jafnvægi nást í kringum árið 2019.“

Rétt er að spyrja hæstv. núverandi ráðherra: Hvenær næst jafnvægi að mati ráðherrans?