149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

húsnæðismál.

[11:49]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Um leið og ég hrósa hv. þm. Loga Einarssyni fyrir ansi góða framsöguræðu í upphafi var dapurlegt að sjá hann detta í evruumræðuna hér í lokin vegna þess að ég held að evran sé ekki það sem leysi húsnæðisvandann á Íslandi.

Ég vil byrja á því að segja að mér hefur fundist þessi umræða vera gríðarlega góð. Ég held að í þessum sal sé miklu meiri samhljómur en kannski margir halda. Við verðum að ná því hér í gegn að við förum að vinna áætlanir til lengri tíma, draga úr sveiflum, það er verið að vinna að því, það eru mörg sveitarfélög þegar farin að vinna húsnæðisáætlanir. Í nýjum lögum sem samþykkt voru um Íbúðalánasjóð á síðasta þingi var einmitt samþykkt að sveitarfélög á sameiginlegum atvinnusvæðum myndu vinna sameiginlegar húsnæðisáætlanir. Við þurfum í auknum mæli að horfa til þess að höfuðborgarsvæðið fari að vinna meira saman í þessum málum. Ég held að það svari þá líklega spurningu hv. þingmanns (LE: Nei, nei.) um það að um leið og þau fara að vinna saman verða allir að leggja sitt af mörkum, í lóðum og öðru slíku.

En jafnvel þótt við myndum tryggja mikið framboð á lóðum, ekki bara í Reykjavík heldur í fleiri sveitarfélögum, hefur markaðurinn sýnt að hann hefur ekki getað leyst húsnæðisvandann sjálfur hér á landi. Þess vegna þurfum við miklu meiri félagslegar lausnir samhliða því. Við þurfum aðgerðir fyrir fyrstu kaupendur, verið er að vinna í þá veruna. Við þurfum líka miklu öflugri óhagnaðardrifinn leigumarkað og það er einnig verið að vinna í þá veru, bæði beint hjá ríkinu í gegnum Íbúðalánasjóð og eins í samtali við sveitarfélög og aðila vinnumarkaðar.

Þó að markaðurinn sé góður og þó að hann sé góður til ákveðinna hluta hefur hann ekki einn og sér getað leyst húsnæðisvandann á Íslandi. Þess vegna eiga stjórnvöld að grípa inn, vegna þess að húsnæðismál eru velferðarmál. Þau verða velferðarmál og við eigum að horfa á þau eins og þau séu velferðarmál. Það er sú nálgun sem þessi ríkisstjórn hefur á þennan málaflokk. Það er gríðarlega gott og jákvætt að taka umræðuna hér á þinginu sem oftast um þessi mál og ég fagna því í hvert skipti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða umræðu.