149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[11:52]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 144, sem er mál nr. 144 sömuleiðis. Þar er um að ræða ný heildarlög um veiðigjald sem munu koma í stað gildandi laga sama efnis sem falla úr gildi um næstu áramót.

Ég vil í upphafi þessarar framsögu fara lítillega yfir markmið og forsögu veiðigjalds í sjávarútvegi. Þar er fyrst til að taka 1. gr. frumvarpsins:

„Veiðigjald er lagt á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.“

Ýmsum hættir til að hefja ræður á tilvísunum í fornsögur, ég tala nú ekki um þjóðsögur, nú á seinni tímum, en ég ætla ekki að gera það að þessu sinni. Þó vil ég benda á að rekja má umræðu um auðlindagjald í sjávarútvegi hið minnsta til tímans eftir að þeim áfanga var náð í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar sem var útfærsla efnahagslögsögunnar í 200 mílur.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, lýkur bók sem hann skrifaði um landhelgisdeilurnar á því að vísa til orða Gunnars H. Ólafssonar, skipherra hjá Landhelgisgæslunni. Gunnar komst svo að orði sumarið 1978 að segja mætti að fjórða þorskastríðið væri hafið, það snerist um að rækta aftur hálfdeydda fiskstofna í kringum landið. Stóri munurinn á því þorskastríði samanborið við hin fyrri væri hins vegar sá að nú stæði þjóðin ekki einhuga lengur heldur rækjust hagsmunir á hagsmuni og bróðir væri á móti bróður. Yrði sigur ekki unninn í því stríði væri öllum öðrum sigrum í landhelgismálinu kastað á glæ.

Ég ætla ekki að gera tilraun til að rekja hér úr ræðustól sögu fiskveiðistjórnar síðustu tvo áratugi næstliðinnar aldar. Aðalsmerkið var hvernig draga mætti úr offjárfestingu, skapa hvata til hagræðingar og auka framleiðni í greininni. Þær áherslur reyndu verulega á einstök fyrirtæki og byggðir landsins, svo sem flestum Íslendingum er kunnugt, og skópu um margt harðdrægar deilur sem enn eimir eftir af. Sú stefna sem tókst að marka varð hins vegar til þess, ásamt með öðru, að Íslendingar hafa náð að tryggja sér lífskjör sem eru með þeim bestu í Evrópu.

Það er rétt að rifja þetta upp núna, við umræðu um þetta mál, því að ef ekki væri fyrir blómlegan sjávarútveg hér á landi væri engum viðræðum um veiðigjald til að dreifa. Það væri einfaldlega ekkert til skiptanna.

Það er fyrst eftir aldamótin sem afkoma fiskveiða fer að verða umtalsverð, svo sem sjá má í skýrslum Hagstofu Íslands um hag veiða og vinnslu. Þegar þeim ánægjulega áfanga var náð getur það síðan af sér stjórnmálalega umræðu sem tekur þá í auknum mæli að beinast að auðlindagjaldi í sjávarútvegi.

Markmiðsgrein frumvarpsins, sem ég las hér áðan, var efnislega mótuð af svonefndri auðlindanefnd sem starfaði einmitt um aldamótin og var skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem þá sátu á þingi. Frá þessu er lítillega sagt í skýringum við frumvarpið, en nefndin komst að því áliti að greiðsla fyrir afnot af sjávarauðlindinni gæti stuðlað að því að sátt gæti tekist um stjórn fiskveiða, enda yrði sú gjaldtaka ákveðin með hliðsjón af afkomuskilyrðum.

Frá því að ég tók við embætti sjávarútvegsráðherra hef ég kynnst því hversu vandasamt þetta mál er, þ.e. hversu vandasamt er að gera tillögu um aðferð við ákvörðun veiðigjalds. Kannski veldur hér nokkru að á síðustu tíu árum hafa lög um veiðigjald ítrekað verið opnuð hér í þinginu og gerðar á þeim breytingar sem stundum hafa valdið allnokkrum deilum. Við undirbúning þessa frumvarps hefur verið leitast við að læra af þeirri reynslu sem hefur orðið til með þessu verklagi.

Meginmarkmið mitt með því frumvarpi sem ég mæli hér fyrir er að leitast við að tryggja að gegnsæ, fyrirsjáanleg og skiljanleg ákvæði gildi um ákvörðun og álagningu veiðigjalds. Með því getum við horft til lengri tíma í einu og tryggt sjávarútvegi þann stöðugleika sem nauðsynlegt er að grundvallaratvinnuvegir þjóðarinnar búi við. Veiðigjaldinu er í annan fótinn ætlað að stuðla að sátt um sjávarútveginn og er það von mín að þetta frumvarp geti ýtt undir að svo verði, að þrátt fyrir að hagsmunir rekist á og skoðanir séu mismunandi sé engu að síður grundvöllur að samkomulagi í góðu bróðerni hér á þinginu, eða segjum við kannski fremur í góðum þelskap í anda nýrra tíma og máls beggja kynja.

Virðulegi forseti. Ég mun nú víkja að meginefni frumvarpsins.

Með frumvarpinu er lagt til að reiknistofn veiðigjalds hvers árs byggi á afkomu við veiðar á hverjum nytjastofni, eða fiskstofni hvers um sig. Í stað þess að stuðst verði við upplýsingar um hreinan hagnað fiskveiða og vinnslu úr Hagtíðindum verði gögn til að ákvarða reiknistofninn einvörðungu byggð á skattaupplýsingum um fiskveiðar. Þeim upplýsingum verður safnað þannig að útgerðarfélög munu skila þeim til ríkisskattstjóra samhliða reglulegum skattskýrslum sínum. Leitast hefur verið við að gera framkvæmd þessa þannig úr garði að hún verði ekki verulega íþyngjandi með því að upplýsingar frá Fiskistofu, um afla og aflaverðmæti hvers skips, verða færðar rafrænt í skattskýrslurnar. Reiknistofn frumvarpsins og sú aðferð sem notuð er til að ákvarða hann og deila honum niður á einstaka stofna verður með aðferð frumvarpsins mun gegnsærri og auðskiljanlegri en reiknistofn gildandi laga.

Ítarleg grein er gerð fyrir reiknistofni laganna í frumvarpinu og vísa ég þangað til nánari útlistunar. En ég vil sérstaklega geta þess að með hinum nýja reiknistofni höfum við leitast við að girða fyrir óeðlilegar sveiflur sem hafa orðið til með núverandi fyrirkomulagi. Þar veldur mestu að hreinn hagnaður fiskveiða hefur m.a. ráðist af endurmati á virði lána þannig að til hefur orðið veruleg tekju- eða gjaldafærsla sem þó er aðeins bókhaldsleg og getur verið í miklu ósamræmi við þróun í rekstrarumhverfi sjávarútvegsins, svo sem menn þekkja.

Með því að sækja upplýsingar í skattskýrslur náum við einnig að minnka tímatöf við meðferð upplýsinga þeirra sem koma í reiknistofninn. Þar hefur mesta þýðingu að lagt er til með frumvarpinu að veiðigjald verði ákveðið í lok árs til að gilda fyrir næsta almanaksár í stað þess að vera ákveðið í ágústlok til að gilda fyrir komandi fiskveiðiár.

Gott samstarf hefur verið haft við undirbúning frumvarpsins við embætti ríkisskattstjóra sem mun taka við mjög auknum verkefnum verði frumvarpið að lögum.

Lagt er til að stjórnsýsla veiðigjalds verði einfölduð verulega, m.a. með brottfalli sérstakrar nefndar um veiðigjald, veiðigjaldsnefndar. Ég vil þó geta þess hér að veiðigjaldsnefnd hefur verið meðal ráðgjafa starfsmanna ráðuneytisins við undirbúning frumvarpsins.

Með frumvarpinu er lagt til að gjaldhlutfall veiðigjalds af reiknistofni nemi 33% sem er sama gjaldhlutfall og er samkvæmt gildandi lögum. Með þessu er lagt til að gjaldhæð veiðigjalds taki mið af vegnu meðaltali veiðigjalds sem hlutfalls af bakreiknuðum reiknistofni frumvarpsins fyrir árin 2009–2018. Umorða má þetta þannig að heildarfjárhæð veiðigjalds á tímabilinu 2009–2018 nemur tæpum 64 milljörðum kr. en hefði numið sömu fjárhæð, eða raunar lítillega hærri fjárhæð, ef frumvarp það sem ég mæli nú fyrir hefði verið í gildi á sama tíma. Segja má að með þessu sé byggt á ákvörðunum Alþingis um veiðigjöld á þessum árum sem hafa verið umrótaár í íslensku þjóðfélagi svo sem við þekkjum svo gjörla hér í þessum sal.

Ég vil leggja á það áherslu að með þessari aðferð er hvorki verið að lækka né hækka veiðigjald. Mismunandi gjaldhæð veiðigjalds milli ára á þeim tíma sem horft var til við afmörkun gjaldahlutfallsins sem og á næstu árum, verði frumvarpið að lögum, mun bæði ráðast af rekstrarupplýsingum um fiskveiðar og þeim afla sem veiðist hverju sinni á Íslandsmiðum.

Í frumvarpinu er lagt til að svonefnt frítekjumark veiðigjalds verði óbreytt, en í 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um það. Þar segir að hver gjaldskyldur aðili greiði 20% af fyrstu 4,5 millj. kr. álagðs veiðigjalds og 15% af næstu 4,5 millj. kr. álagningarinnar. Tilgangur þessarar reglu er að koma til móts við sjónarmið um ólík áhrif veiðigjalds á byggðir landsins sem og smá og meðalstór fyrirtæki í sjávarútvegi, svo sem rakið var í lögskýringargögnum á sínum tíma.

Mér er kunnugt um að þeim sjónarmiðum hefur verið hreyft að auka eigi við þetta frítekjumark einstakra aðila. Við höfum hins vegar engar upplýsingar um að samdráttur í afkomu á síðustu tveimur árum hafi verið meiri hjá litlum og meðalstórum útgerðarfélögum en þeim sem stærri eru. Þá má einnig spyrja sig hvort verulegar undanþágur eða afslættir á auðlindagjaldi samrýmist þeirri hugsun sem við ættum að tileinka okkur, enda virðist sanngjarnt að allir sem njóta aðgangs að fiskveiðiheimildum leggi líkan skerf af mörkum til þjóðarinnar.

Ég vil nefna af þessu tilefni, og vegna þess sem ég hef áður greint frá um reiknistofn frumvarpsins, að lagt er til að skráð aflaverðmæti alls uppsjávarafla verði hækkað um 10% við útreikning á reiknistofni uppsjávarstofnanna. Ástæða þess er sú að veiðigjald á uppsjávarstofna hefur verið reiknað sérstaklega á undanförnum árum og hefur þar verið tekið inn í stofninn hærra hlutfall af hagnaði við vinnslu uppsjávartegunda en í botnfisksvinnslu. Við það að einungis verði byggt á afkomu við veiðar verði því að beita annarri reglu á uppsjávarstofna en botnfisksstofna eigi að ná sömu tekjum af bakreiknuðu gjaldi samkvæmt frumvarpinu tíu ár aftur í tímann fyrir þessar deildir sjávarútvegsins.

Með frumvarpi þessu er lagt til að veiðigjaldið verði næmt fyrir afkomu fiskveiða hverju sinni. Því miður hefur afkoma sjávarútvegsfyrirtækja dregist nokkuð saman á síðustu tveimur árum, svo sem ég hef komið inn á í ræðu minni. Þar veldur bæði sterkt gengi krónunnar og óhagstæð þróun þeirra þátta sem myndað hafa reiknigrunn veiðigjaldsins, m.a. olía og laun. Frá þessu er greint nánar í skýringu við frumvarpið, en útlit er fyrir að tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi dragist saman á næstu árum af þessum sökum og verði um 6 til 8 milljarðar kr. á næstu árum nema viðsnúningur verði í rekstrarumhverfinu.

Í ákvæði til bráðabirgða við frumvarpið er tafla sem lagt er til að gildi sem veiðigjald fyrir árið 2019. Vegna þeirra breytinga sem frumvarpið hefur í för með sér fyrir gagnasöfnun embættis ríkisskattstjóra og vegna þess tíma sem gera verður ráð fyrir að Alþingi muni taka til að fjalla um frumvarpið er nauðsynlegt að leggja til slíka töflu.

Samkvæmt áætlun um aflamagn íslenskra skipa árið 2019 má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi vegna ársins 2019 nemi rúmlega 7 milljörðum kr. verði frumvarpið að lögum. Er það í samræmi við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem og frumvarp til fjárlaga næsta árs.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég vekja athygli þingheims á því að nú í október mun ég heimsækja tíu sveitarfélög um allt land til að ræða m.a. þetta frumvarp og sjávarútvegsmál almennt. Ég vil hvetja hv. þingmenn, hvort sem þeir tilheyra stjórn eða stjórnarandstöðu, til að sækja þá fundi og hlusta eftir þeim sjónarmiðum sem þar munu koma fram og eftir atvikum taka þátt í umræðunni. Það er mikils virði fyrir okkur þingmenn að taka samtal sem þetta um allt land og mun ég senda hv. þingmönnum dagskrá þessara funda þegar nær dregur.

Hvað frumvarpið varðar vil ég að öðru leyti vísa til þeirra athugasemda sem fylgja því hér við framlagningu, en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess.

Að lokinni þessari umræðu legg ég síðan til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.