149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:10]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Áfram um ferli lagasetningar. Í Kastljóssþætti á þriðjudaginn var hæstv. ráðherra spurður út í það að reiknistofn veiðigjalds til þessa hefði verið hlutfall af hreinum hagnaði í fiskveiðum og hluta hagnaðar við fiskvinnslu. Nú ætti að taka fiskvinnsluhlutann út, gjaldið legðist ekki á landvinnsluna og hvort það væru ekki aðallega stærri útgerðir sem græddu á því. Hæstv. ráðherra sagði í svari sínu að hann væri ekki viss um það. Hann og hans ráðuneyti hefðu ekkert yfirlit yfir það.

Nú veit ég líka til þess að mat á áhrifum lagasetningar á að fara fram áður en frumvarp er lagt fram. Ég finn því ekki stað í greinargerð frumvarpsins að mat á áhrifum þessa frumvarps gagnvart meðalstórum og minni útgerðum versus stærri útgerðum hafi farið fram. Hefði ekki verið rétt að fara fram á slíkt mat? Ætlar ráðherra að taka slíkt mat að sér, að skoða hvaða áhrif þessi breyting hefur á minni og svo stærri útgerðir?