149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli hv. þingmanns á því að hann er í andsvörum hér við spurningum sem bornar eru upp. En bara til að svara spurningunni: Ég hef ekkert verið að reikna út áhrif frumvarpa sem voru numin úr gildi með annarri lagasetningu. Það er bara enginn tími í slíkt, sem betur fer segi ég í mörgum tilfellum.

Hv. þingmanni verður mjög tíðrætt um gæði þessa kerfis í Færeyjum og ræðir á sama tíma um nauðsyn nýliðunar hér: Hvað hefur orðið mikil nýliðun í færeyskri útgerð í tengslum við uppboð á aflaheimildum? Hvað eru Færeyingar að bjóða upp stóra hlutdeild af þorskveiðiheimildum sínum sem þeir ráða einir yfir? Hver er reiknuð framlegð af makríl á íslenskum miðum síðustu tvö árin sem hv. þingmaður er að tala um að hækka hér upp úr öllu valdi? Ég vænti þess að þessar upplýsingar liggi allar fyrir þegar haldið er fram þeim staðhæfingum sem hér hafa komið fram.