149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:52]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er var mjög athyglisvert að hlusta á ræðu hv. þingmanns. Að mestu leyti fjallaði ræða hennar um eitthvað allt annað en það frumvarp sem hér liggur fyrir þannig að ræðan fjallaði í mörgum meginatriðum um að gera algjöra uppstokkun á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Látum það bíða um sinn.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í eru fullyrðingar hennar um þetta frumvarp, að hér séu þingmenn að ákveða verð á fiski. Hvernig fær hún það til þess að koma heim og saman? Mig langar að spyrja hana hvar í þessu frumvarpi verið sé að ákveða verð á fiski. Hvar í núgildandi lögum er verið að ákveða verð á fiski? Ég held að það sé reginmisskilningur hjá hv. þingmanni. Hér er verið að ákveða gjald. Hér er verið að ákveða skatt. Það er ekki þannig þegar verið er að ákveða skattprósentu af virðisaukaskatti að ríkið ákveði verð á vöru. Það er ekki þannig. Hér er verið að ákveða gjaldhlutfall, ekki verð á fiski. Hann ræðst á frjálsum, opnum alþjóðlegum markaði.