149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að Miðflokkurinn líti svo á að fiskveiðistjórnarkerfið sem við búum við sé það besta í heimi. (BergÓ: Það hefur alltaf …) Ég held að það sé nokkuð sameiginlegt álit þeirra sem hér hafa rætt þessi mál í dag, þó að a.m.k. einn flokkur á þingi líti svo á en telji samt sem áður þörf á að breyta því. Ég hef aldrei skilið þá afstöðu, en það er ekki Miðflokkurinn. Ég fór ágætlega í gegnum sjónarmið mín gagnvart þeim meginspurningum sem hv. þingmaður var með hér uppi og gerði grein fyrir þeim í dag í umræðu.

Það eina sem ég segi er að þetta eru sjónarmið sem atvinnuveganefnd þarf að fara í gegnum vegna þess að töluvert hefur borið á þeim hér í umræðu. Ég er ekki að gefa nein fyrirheit um að geta stutt það sem þar kemur upp nema fyrir liggi þannig rökstuðningur að gerlegt sé að taka slíkar ákvarðanir. Ég hef ekki enn séð þann rökstuðning og ég sagði í framsöguræðu minni að við hefðum engar upplýsingar um að þessi breyting í afkomu snerti eitt útgerðarform verr eða betur en annað. Stóru fyrirtækin sem mönnum verður stundum tíðrætt um að geti staðið utan við einhverja ,,leiðréttingu“ hagræða með öðrum hætti, þau fækka bara störfum. Það getur verið stórt fyrirtæki í litlu byggðarlagi.

Ég kalla eftir því að þegar menn í atvinnuveganefnd fara að ræða þessi atriði fari þeir yfir allt sviðið. Það er ekki sjálfgefið að einhver flokkun sem við göngum með í höfðinu styðjist við einhvern raunveruleika þarna úti. Ég tel að gjaldtakan eins og hún hefur verið og stefnir í íþyngi öllum útgerðarformum jafn mikið, bara mismikið hversu þungt högg þau þurfa að (Forseti hringir.) taka á sig. Ég bið hv. þingmann að hafa þetta í huga þegar ég svara honum með þessum hætti.