149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:19]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Mér þykir afskaplega leitt að vera að ræða þetta gríðarstóra mál án þess að hæstv. umhverfisráðherra sé í salnum. Þó að þetta einstaka inngrip hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fjalli að hans mati ekkert um umhverfismál eru í því máli eins og svo mörgum öðrum sem varða þetta stóra mál ekki allir sammála. Þetta er nefnilega risastórt umhverfismál, byggðamál og atvinnumál. Þetta er líka heilbrigðismál þannig að kannski ætti ríkisstjórnin öll að sitja hér og fjalla um það.

Vissulega er fjallað um fiskeldi í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað. Samhliða vexti greinarinnar þarf að tryggja nauðsynlegar rannsóknir og eðlilega vöktun áhrifa á lífríkið. Eftir því sem fiskeldinu vex fiskur um hrygg þarf að ræða framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku vegna leyfisveitinga.“

Herra forseti. Þetta mál er hreint ekki einfalt og það opinberaðist okkur kannski fyrst og fremst í ræðu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ekki síður í andsvörum hans. Þetta er allt svo ruglingslegt, það eru svo mörg ef í þessu máli og þessu frumvarpi að sú sem hér stendur áttar sig eiginlega alls ekki á því hvernig við eigum að geta afgreitt það svo vel fari. Hvernig ætlum við að réttlæta það í framtíðinni að hafa klárað þetta flókna mál með þessum hætti? Hvaða fordæmi erum við að setja inn í framtíðina, herra forseti? Í þessu einstaka máli er vissulega ekkert fjallað um efnishlið málsins í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Það er ekkert vikið að efnisþætti málsins, þetta eru allt saman lagatæknileg atriði.

Höfum við einhverja vissu fyrir að svo verði alltaf? Höfum við eitthvert öryggi eða einhverja tryggingu fyrir því að við stöndum ekki frammi fyrir einhverju stórtjóni þar sem hringt verður í farsíma ráðherra og hann beðinn að græja bráðabirgðaleyfi á meðan „við strákarnir“ reddum málunum einhvern tímann seinna í næsta máli þar sem eitthvað annað gerist? Hvernig getum við verið tryggð fyrir því?

Í þessu máli er ekki um stórtjón að ræða eins og áður sagði. Varðandi þá lagasetningu sem hér er verið að biðja okkur að keyra í gegnum þingið á þessum hraða, einu sinni sem oftar, herra forseti, er ekki um slíkt að ræða, en þetta eru lög sem eiga að taka með almennum hætti á þessu; ekki sértækum, heldur almennum. Þetta á að gilda það sem eftir er.

Ég hef mjög miklar áhyggjur af því að ekki sé farið í sértækar aðgerðir í þessu tiltekna máli eins og kom svo sem fram í andsvari mínu áðan. Frestun réttaráhrifa er einstök aðgerð sem beinist að einstöku ákveðnu máli. Við getum í rauninni sagt okkur að í þessu máli er ekki um að ræða brýna náttúruvá eftir því sem við best vitum. Auðvitað vitum við það ekkert fullkomlega, en a.m.k. miðað við úrskurði sem við höfum í höndunum eru þeir ekki byggðir á því að um sé að ræða eitthvert stórkostlegt tjón sem orðið hefur eða t.d. vanrækslu. Það er ekki ástæðan fyrir því að verið er að fella rekstrar- og starfsleyfi úr gildi. Þetta eru lagatæknileg atriði af því að rekstraraðilar þóttu ekki hafa uppfyllt einhver skilyrði um að svara ákveðnum spurningum þegar þeir sóttu um leyfið.

Þá komum við kannski aftur að stjórnsýslunni, herra forseti. Stjórnsýslan hefur auðvitað ríkar leiðbeiningarskyldur og ríkar rannsóknarskyldur. Við afgreiðslu á þessum leyfum virðist sem eitthvað hafi aðeins misfarist varðandi leiðbeiningarskylduna. Eftir því sem maður les sig í gegnum alla þessa úrskurði er a.m.k. ekki talað um það og beinlínis á það minnst að umræddir rekstraraðilar hafi ekkert verið inntir eftir þessum upplýsingum. Þeir áttu að vita þetta sjálfir eða finna á sér að þetta væri skilyrði leyfanna.

Það er mjög óheppilegt að stjórnsýslan og stjórnvöld skuli hvetja fólk áfram með þessum hætti, ef rétt er, að hefja starfsemi, skila inn ákveðnum upplýsingum, segja að slíkar upplýsingar séu fullnægjandi, hvetja fólk áfram til dáða, en kippa svo undan því fótunum þegar mánuðirnir líða. Það er algjörlega ótækt en breytir ekki því að þetta er staðan í þessu einstaka máli, að hér er ekki verið að setja út á, svo ég endurtaki mig í sífellu, starfshætti umræddra rekstraraðila heldur eitthvað lagatæknilegt.

Mér þykir heldur óvarlega farið að setja almenn lög til framtíðar þar sem við erum í rauninni svona illa varin fyrir hvers kyns undanþágum. Mér þykja ekki góð skilaboð til rekstraraðila í þessum geira eða öðrum geirum að rekstraraðilar geti í rauninni treyst því að þeir fái undanþágu, ekki bara í tíu mánuði heldur 20 mánuði, til að bæta úr einhverju sem þeir hefðu mögulega átt að gera áður. Mér þykja þetta ekki vænleg skilaboð til framtíðar.

Ég held að þó að þetta mál eigi að ganga til atvinnuveganefndar sé nauðsynlegt að atvinnuveganefnd, hvers formaður gekk fyrir framan púltið rétt í þessu, óski umsagnar umhverfis- og samgöngunefndar vegna þessa máls þannig að umhverfis- og samgöngunefnd geti kallað til sín, fyrir sína nefnd, ýmsa þá aðila sem eru sérfræðingar í fiskeldi og umhverfisþættinum. Óska ég eftir að formaður atvinnuveganefndar, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, sem stendur hér í hliðarsal, taki þetta til greina.

Fleira var það ekki að sinni.