149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:28]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að koma með andsvar við ræðu hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur. Hún talar um að við séum ekki að fjalla um náttúruvá heldur lagatæknilegt atriði sem kippa þurfi í lag. Hv. þingmaður sagði sjálf að ekkert sé út á starfsemi fyrirtækjanna að setja. Þess vegna segi ég: Af hverju þurfum við að velta þessu svona lengi fyrir okkur ef við þurfum aðeins að laga það að starfsemi geti haldið áfram? Það er í raun Matvælastofnun sem hefði átt að fara í dag og stoppa þessa framleiðslu.

Hér er um að ræða byggðavá sem við verðum að bregðast við. Við getum gert það með þessum einfalda hætti — til þess að virkja það meðalhóf sem er í stjórnsýslunni, sem er nokkuð virkt að öllu leyti, en hvað þetta varðar hefur það alveg gleymst — og leyft fyrirtækjunum að halda áfram starfsemi. Í dag eru þau með ólöglega starfsemi. Og þarna er fiskur kominn út í kvíar. Hvað eigum við að gera annað en þetta? Ég held að um sé að ræða tilraun til að laga fyrri mistök löggjafans.