149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[16:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langaði reyndar að fara í andsvar við hv. þingmann en ég var inni á skrifstofu minni að hlusta á ræðurnar og náði þess vegna ekki í tæka tíð. Ég skildi hv. þingmann þannig af fyrri hluta ræðu hans að við værum að tefja mál. Mér finnst ástæða til að koma upp og hafna því. Það er algjörlega eðlilegt og nauðsynlegt að Alþingi ræði mál sem þetta í þaula. Það eru ekki tafir. Það er hluti af því sem við gerum hérna og eigum að gera, hluti af því að gera hlutina vel og standa undir þeirri ábyrgð sem við eigum að standa undir í þessum sal við afgreiðslu mála.

Það er ákveðin tilhneiging til að gera lítið úr nauðsyn þess að ræða málin efnislega þegar mikið liggur við. Auðvitað liggur mikið við en það skiptir samt máli að málin séu rædd. Þingfundur má standa til miðnættis í dag, eins og hv. þingmaður eflaust veit. Mér finnst rétt að koma því á framfæri vegna þess að ekki má líðast að almennt sé talið að um leið og stjórnarandstöðuþingmenn eða þingmenn ræða mál sé verið að tefja. Það er hugsunarháttur sem á ekki að vera normið í þingsal.