149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[16:20]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegum vanda í dag. Það er mikið neyðarástand á sunnanverðum Vestfjörðum og það er mikilvægt að við leysum úr þessum vanda á sem bestan mögulegan hátt. Til að vísa stuttlega í það sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði áðan, þá er nauðsynlegt að við ræðum þetta mál mjög vandlega. Það er ákveðin tilhneiging sem C. Northcote Parkinson fjallaði um á sínum tíma til þess að ræða mál minna eftir því sem þau eru veigameiri. Við megum ekki falla í þá gryfju.

Vandinn núna kemur til af því að ákveðnum lagaheimildum var beitt á ákveðinn hátt sem virðist vera samkvæmt eðlilegum farvegi en úr verður ástand þar sem er teflt saman tvenns konar hagsmunum. Annars vegar hagsmunum byggðarinnar á sunnanverðum Vestfjörðum og hins vegar náttúrunni. Auðvitað er þetta náttúruverndarmál. Öll mál, sérstaklega eftir að ný skýrsla IPPC kom í gær, eru náttúruverndarmál í dag.

Það er ástæða til þess engu að síður að taka náttúruvernd aðeins til hliðar í þessu máli og ræða hana sérstaklega á öðrum tíma. Það er auðvitað alltaf ástæða til að ræða náttúruvernd, en við verðum að slíta þetta tvennt í sundur. Ég ætla að gera það með þessum hætti.

Náttúruverndaratriðið snýst um það hvort lögin um fiskeldi séu nægilega góð. Það er mjög einfalt, þau eru það ekki. Þau eru hrikalega vond, hrikalega léleg og ekki í samræmi við þá staðla sem hafa verið þróaðir t.d. í Noregi og annars staðar. Það er gríðarlega mikilvægt að við horfumst í augu við það og tökum á þeim vanda. Við gerum það ekki núna í þessari viku, það er ekki tími til þess. Raunveruleikinn er sá að við verðum að bregðast við því vandamáli sem komið er upp eins hratt og mögulegt er til þess að fleiri hundruð manns missi ekki vinnuna og heil byggðarlög leggist af. Það er fullkomlega mögulegt ef allt fer á versta veg.

Skoðum þá af hverju þetta gerist. Jú, það kemur ákvörðun frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem byggir á því að ákveðnir möguleikar hafi ekki verið kannaðir. Þeim möguleikum hefur verið af ýmsum, fullkomlega réttilega, vísað á bug, að orkuþörfin sé of mikil fyrir landeldi, það þurfi heilu virkjanirnar svo ekki sé talað um vatnsflauminn sem þarf í slíkt, og að erfðabreytingar af því tagi sem gera geldfisk mögulegan er óraunsæ lausn í ljósi þess að þeirri tækni hefur ekki verið beitt í miklum mæli. Að vísu hef ég það frá mjög góðum manni að það sé verið að kanna það núna í Kanada að gera þetta í töluvert meiri mæli en hefur verið gert, meiri en sem nemur öllu laxeldi á Íslandi, þannig að kannski er þetta að verða raunsærri tækni en það breytir því ekki að þetta er ekki lausnin sem við þurfum akkúrat á þessu augnabliki.

Möguleikarnir voru kannaðir en það var ekki fjallað um þá í umsókninni og það er formgalli sem Umhverfisstofnun eða hugsanlega einhver önnur stofnun, án þess ég viti nákvæmlega hver, hefði auðvitað átt að benda á vegna þess að stjórnvöld hafa leiðbeiningarskyldu. Svona formgallar eiga ekki að fá að eiga sér stað. Úr varð þetta klúður og ég ætla að kalla þetta klúður vegna þess að við erum annars vegar með stjórnvald sem sinnir ekki leiðbeiningarskyldu sinni og hins vegar erum við með lög sem virðast vera gölluð. Þetta er að öllu leyti í samræmi við þá klúðurmenningu sem við höfum leyft að viðgangast í stjórnmálum allt, allt of lengi.

Við þurfum að hætta þessu. Við þurfum að fara að gefa okkur meiri tíma til þess að vanda mál, þ.e. ekki vandamál, að tryggja að allt sé vel gert og að svona gallar séu að koma í andlitið á okkur síendurtekið, trekk í trekk. Ég er búinn að vera á Alþingi í tvö ár núna og ég veit ekki hversu oft við höfum verið hér, hversu margir daga hafa farið í það bara að leiðrétta gölluð lög. Við eigum ekki að þurfa að eyða svona miklum tíma í þetta. Við eigum að geta vandað okkur aðeins meira þótt það taki aðeins meiri tíma, þannig að þetta gerist ekki og heilu byggðarlögin séu ekki sett í uppnám í leiðinni þegar það gerist.

Við getum tekið náttúruverndina aðeins frá, sett hana til hliðar, en við þurfum að ræða hana og ég legg til það verði rosalega stíft tekið á umhverfismálunum í frumvarpi sem mér skilst að komi í nóvember. Ef það verður ekki tekið nægilega vel á þeim málum í frumvarpinu þá legg ég til að það verði lagað. Það er ekki ásættanlegt að við séum einhvers konar þriðja flokks land, eftirbátar annarra landa þegar kemur að umhverfisvernd í þeirri stöðu sem við erum í núna.

Þá er spurningin: Hvaða leiðir eru færar til þess að laga vandamálið eins og það er í dag? Ein tillagan er í formi þessa frumvarps, að gefa ráðherra töluvert víðtæka heimild til þess að laga málið, vissulega laga það vel og laga kannski ýmis önnur vandamál í leiðinni. Þá er rétt að benda á í þessu samhengi að það má spyrja hvort að tengsl hæstv. sjávarútvegsráðherra við þessi umræddu fyrirtæki sé ákveðið vandamál. Kannski er þetta eitthvað sem þarf að ræða en mér finnst nauðsynlegt að við skoðum það í þetta samhengi.

Það er aftur á móti kannski til önnur leið. Það hefur verið rætt um það að samkvæmt úrskurðinum sjálfum og samkvæmt þeim heimildum sem eru til staðar, ef Matvælastofnun fyrirskipar lokun á þessari starfsemi, þá hafi ráðherra heimild til þess að fresta réttaráhrifum þangað til að búið er að vinna málið. Ef sú leið er fær þá þurfum við ekki á þessu frumvarpi að halda, þá er það hreinlega óþarfi. Þá getum við bara farið heim eða alla vega farið að tala um samgönguáætlun sem er eflaust miklu áhugaverðara mál fyrir suma.

Við þurfum samt að leysa þetta vandamál og ef ég fengi fullkomna vissu fyrir því að sú leið sem er lögð til í úrskurðinum er ekki fær, þá skulum við skoða hvort þessi tillaga sjálf sé nógu góð. Í henni sé ég nokkra hluti. Eitt er að verið er að leggja til 10 mánaða bráðabirgðaleyfi sem er hægt að framlengja einu sinni. Það þýðir að undir ákveðnum kringumstæðum er mögulegt fyrir fyrirtæki sem ógnar jafnvel náttúrunni að mati úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að halda áfram starfsemi í 20 mánuði eftir að leyfið hefur verið afturkallað. Það þykir mér ansi rúmur tími. Það væri eðlilegra að stytta hann og fella burt heimildina til þess að framlengja, en þá verður til ákveðið vandamál sem er rétt að benda á sem er að dómsmál taka stundum langan tíma. Það getur verið að dómsmál dragist alveg í 18 mánuði. Þá þarf einhvers konar leið að vera fær til finna millibilið þar.

Kannski er rétt leið, í staðinn fyrir þetta tiltekna orðalag sem leyfir 10 mánuði tvisvar, að segja bara að ef búið er að höfða mál eða óska eftir því að málið verði tekið upp eftir ákveðnu ferli þá verði réttaráhrifunum frestað þangað til búið er að leysa það vandamál. Kannski nægir það til þess að þetta vandamál hverfi. Það er einn möguleiki sem við ættum mjög alvarlega að skoða.

Hugsanlega mætti fara aðra leið og stytta tímann en bjóða upp á einhvers konar framlengingu ef mál eru í gangi. Þarna förum við einhvers konar millileið. Í rauninni skiptir þetta ekki máli, en við þurfum að skoða þessa möguleika og tryggja að ekki verði til heimild sem er hægt að nota villt og galið.

Kjarni málsins er að þetta er tillaga um að laga ákveðið vandamál. Ég geri ráð fyrir því að í ráðuneytinu hafi verið gerð mjög ítarleg skoðun á því hvaða möguleikar voru fyrir hendi. Það geta verið pólitískar ástæður fyrir því að þessi leið var valin fram yfir einhverja aðra. Það geta líka verið tæknilegar ástæður. Við höfum ekki fengið neina umfjöllun um það. Ég á reyndar ekki von á því að það verði umfjöllun um það vegna þess að eðlilega hafa hæstv. ráðherrar stundum ýmsar skoðanir sem er erfitt að rökstyðja með tilvísun í tæknilegar aðferðir. Gott og vel. Allir hafa sína pólitík, sérstaklega í þessum tiltekna sal.

Við verðum að kryfja þetta mál til mergjar. Við megum ekki hlaupa fram úr okkur og samþykkja hvað sem er, bara vegna þess að það liggur á. Vissulega liggur á. Það liggur mjög oft á í þessum sal og yfirleitt þegar er verið að fara að taka mjög slæmar ákvarðanir. Ef við náum að vinna mjög vel saman og horfa skynsamlega á þetta mál og skoða alla möguleika sem eru fyrir hendi, bæði þá sem eru til í dag samkvæmt einhverjum kannski lítt notuðum heimildum sem væri hægt að grafa upp eða með því að setja einhverjar mjög takmarkaðar heimildir sem laga þetta vandamál í bili þangað til að hægt er að taka á þessum gríðarlega stóru og mikilvægu umhverfisþáttum með almennri lagasetningu, þá getum við komið í veg fyrir þetta stórslys á sunnanverðum Vestfjörðum.

Það er að lokum ástæða til að hugsa aðeins út í það hversu slæmt það er þegar heilu byggðarlögin geta lagst á hliðina bara vegna þess að einn atvinnugeiri fær á sig skell. Við erum að tala um tvö fyrirtæki í tiltölulega litlu byggðarlagi og ef einhver hefði hannað þetta kerfi vísvitandi, þá myndi ég leggja til að viðkomandi væri rekinn. Það er óskynsamlegt að byggja upp kerfi sem er svona brothætt.

Við verðum með ákvörðunum hér í þessum sal og hjá hæstv. ríkisstjórn að búa til aðferð fyrir lítil byggðarlög að vera miklu höggþolnari. Að byggja upp fjölbreyttari atvinnuvegi, leggja áherslu á nýsköpun, þannig að þau þoli betur að einstök fyrirtæki eigi vonda viku. Ef við gerum það ekki þá er hætt við því að áhrifin muni ekki bara skella á sunnanverðum Vestfjörðum í þetta skiptið heldur næst þegar einhver staður á Austfjörðum lendir í einhverju óhappi eða einhvers staðar á Suðurlandi eða Norðurlandi eða hvar sem er. Jafnvel Ísland allt sem í dag byggir allan sig hag á þremur lykilatvinnuvegum sem er ekki algjörlega fulltryggt að verði alltaf til staðar. Nú eru ekki nema nokkrar vikur síðan allir voru óttaslegnir yfir því að eitt flugfélag gæti átt erfiða viku.

Við þurfum að hugsa þessa hluti í mun stærra samhengi. Við þurfum að huga að framtíðinni og við þurfum að hætta að búa til skyndilausnir og reddingar alltaf í öllum málum. Það verður að vera miklu betri framtíðarsýn í þessum sal.